Leita í fréttum mbl.is

Ferðasaga frá Nýja Sjálandi. Á leiðinni....

Flugið frá Danmörku til Austurríkis var mjög stutt, um einn og hálfan tíma. Flugfreyjurnar og þjónarnir voru á hlaupum allan tíman því að það var borin fram létt máltíð í fluginu. Frá Austurríki var haldið til Singapore og það flug var töluvert lengra.

Miðað við hvað ég hafði verið hrædd í fluginu frá Íslandi til Danmerkur þá var ég furðulega róleg í þessum hluta flugsins. Fannst algert æði þegar flugvélin var að taka á loft og lenda. Krafturinn alveg rosalegur. Ég er nú samt viss um að aðalástæðan fyrir því hvað ég var laus við alla flughræðslu var stærð vélarinnar. Mér fannst ég alls ekki vera í flugvél. Flugið til Singapore var 12-13 tímar. Það var nóg að gera um borð. Við fengum nánast allt sem við báðum um hjá flugfreyjunum og þjónunum. Ein af íslensku stelpunum átti afmæli. Við fórum og töluðum við yfirflugþjóninn og fengum kampavín og súkkulaðiköku. Það var mjög skemmtilegt og kakan algjört æði. Það var svo spilað, fengum spilastokka í flugvélinni. Ég á minn ennþá. Sofið, ekki mikið þó. Fengum svo tvær máltíðir í viðbót. Kvöldmat og morgunmat. Ég rölti líka um vélaina og reyndi aðeins að kynnast öllum hinum skiptinemunum. Þrátt fyrir lengd flugsins var það fljótt að líða. Þegar við komum svo til Singapore fengum við að vita að flugið til Nýja Sjálands hafði seinkað um 5 tíma. Það var því 7 tíma stopp en ekki tveggja á Changi flugvellinum í Singapore.

Hvað gerir maður eiginlega á risastórum alþjóðlegum flugvelli í 7 tíma? Ég fór og fann örugglega einu opnu verslunina í nýja hlutanum á Changi. Það var verslun sem seldi ljósmyndavörur. Þar keypti ég Canon EOS1000. Hafði lengi langað í hana, en vélin var svo fáránlega dýr heima á Íslandi að ég hafði ekki haft efni á henni. Myndavélin, linsa, taska og ýmislegt annað var meira en helmingi ódýrara á flugvellinum en heima. Ég var himinlifandi með þessi góðu kaup og keypti mér ekki aðra vél fyrr en 11 árum seinna. Ég á ekki nóg af myndavélum nefnilega. Ég skoðaði minjagripabúðirnar, fylgdist með vopnuðu vörðunum útundan mér. Saklaus íslensk stúlka ekki von því að mæta vopnuðum vörðum. Sem betur fer þá útvegaði fararstjórinn mat handa okkur þar sem fluginu seinkaði svo mikið. Þegar við gátum loksins farið í brottfararsalinn þurftum við að fara í gegnum málmleytarhlið. Strákar verða og eru alltaf strákar er það eina sem ég get sagt. Þeir léku sér nefnilega á því að fá hliðið til að pípa á sig með því að setja eins mikið af málmhlutum á sig eins og þeir gátu. Klink, lykla og margt annað. Ég ásamt fleirum hristi bara hausinn yfir vitleysisganginum í þeim. Flogið var með eins vél til Nýja Sjálands ég man nú samt ekki hvort það var sama vélin. Flugið var álíka langt og til Singapore. Alveg nóg að gera um borð. Kynnast krökkunum betur og bara hafa það gaman. Ég svaf nánast ekkert á leiðinni og var því orðin ansi þreytt þegar komið var til Nýja Sjálands. Mér fannst það óskaplega gaman, enda búin að bíða eftir þessu síðan í september. Það fyrsta sem var gert þegar vélin var opnuð, var að það komu flugvallarstarfsmenn og spreyjuðu alla vélina. Við gerðum auðvita ráð fyrir að það væri bara svona vond lykt af okkur útlendingunum að þetta væri nauðsynlegt. Hehehe! Nei þeir voru að spreyja með skordýraeitri. Það fyrsta sem maður andaði að sér á Nýja Sjálandi var sem sagt skordýraeitur. Er það furða að maður sé skrítinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Birna Björnsdóttir

ef þú ert svona skrítin út af skordýraeitri hvaða afsökun höfum við hin þá ??? ; )

Anna Birna Björnsdóttir, 30.6.2006 kl. 12:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Ég er rauðhærð með krullur. Hef dútlað við hitt og þetta. Þykir gaman að elda góðan mat, lesa, horfa á góðar myndir og sjónvarpsþætti og leika við kisuna mína hann Snúð. Er hálfskrítin og stolt af því.

Spurt er....

Rottur eða kakkalakkar, hvort er verra?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband