Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Gæludýr

Mannvonskan er mikil...

Sem dýravini á ég ekki orð.

Gæludýr, hvers kyns sem þau kunna að vera þurfa að treysta á okkur til að hugsa um sig. Ekki geta þau heldur tjáð sig svo við skiljum nema að litlu leyti.

Aðilinn sem framdi þennan óhugnað á greinilega verulega bágt. Að koma svona fram við minni máttar er ofar mínum skilning.

Vonandi næst viðkomandi, fær þungar sektir og fangelsisdóm.

Við megum ekki komið svona illa fram við dýrin okkar.

Þangað til næst... 


mbl.is Dýraníðings leitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúður og teygjan....

Hann Snúður á alveg nóg af dóti og er duglegur að leika sér með það. Ef hann kemst í færi við hárteygju verður hann himinlifandi. Honum þykir ekkert skemmtilegra að leika sér með þær.

Í gær fórum við að leika okkur að gamalli teygju, ég skaut henni út í loftið og hann á eftir. Nei, ég skaut honum ekki út í loftið, bara teygjunni. Það er augljóst að Snúður er ekki hundur þar sem ég þarf að sækja teygjuna til að skjóta henni aftur. Hann situr bara á rassinum og horfir á mig. Meira, skjóttu aftur. Þegar ég nennti ekki að skjóta og sækja, já ég veit það hann ræður, hélt hann bara áfram að leika sér að teygjunni.

Í gærkvöldi fann ég svo teygjuna á gólfinu, rennandi blauta og reyndar bara pínu hluta af henni. Ónei, ætli hann hafi étið restina af teygjunni. Ég varð pínu áhyggjufull en það virtist í lagi með Snúð svo ég hugsaði ekki meira um það. í morgun heyrði ég hann svo kúgast og æla. Það er ekkert nýtt, svona hreinsa þeir sig. Þegar ég fór fram til að hreinsa upp eftir hann sá ég restina af teygjunni í bland við hárin sem hann hafði ælt. Vá hvað mér létti, en mikið rosalega er kötturinn minn ruglaður.

Hann fær ekki að leika sér með teygjur á næstunni.

Þangað til næst....


Fjólur og býflugur....

Ég var að koma frá því að setja í pottana sem mamma gaf mér til að hafa á bakvið hjá mér. Ég setti fjólur í þá, það kom ekkert annað til greina. Fjólur eru uppáhaldsblómið mitt.fjólur

Mamma var svo almennileg að hún keypti nóg af fjólum handa okkur báðum og fullt af mold einnig. Það eina sem ég þurfti að gera var að ná í þetta og fara með niður til mín. Snúður var mjög áhugasamur og hékk úti í glugga og fylgdist með mér setja fjólurnar í pottana. Það gekk bara vel og virtist hann bara vera sammála.

Þegar ég var svo búin að ganga frá öllu og fór út að vökva fékk Snúður að kíkja út. Hann tók tilhlaup og stökk á risastóra býflugu. Vá það urðu smá slagsmál. Ég tók hann upp svo hann yrði nú ekki stunginn og þurfti að hafa mig alla við svo ég missti hann ekki úr fanginu á mér. Hann slasað býfluguna svo mikið að hún geti ekki flogið og liggur bara í grasinu og titrar öll. Ég fór nefnileg út til að athuga með hana og þá mætti önnur býfluga af svipaðri stærð á svæðið. Núna er Snúður við svalahurðina og kvartar hástöfum yfir að fá ekki að fara út. Vá hvað ég er vond.

Ég held samt að hann hafi verið stunginn, ég virðist ekki mega klóra honum vinstra megin á hálsinum. Ég vona bara að hann sé svo fúll út í mig að ég megi ekki vera góð við hann. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem hann slæst við býflugu. Mamma og litli bróðir björguðu einni frá honum uppi á verönd um daginn.

Kamakazi köttur.

Þangað til næst....


Snúður....

Ýmislegt 048Snúður elskar þvottahúsið. Það er fullt af krókum og kimum sem hann getur smeygt sér um. Annars þykir honum ekkert skemmtilegra en að sitja fyrir framan vélina og fylgjast með þvottinum fara hring eftir hring eftir hring. Svo reynir hann að komast inn í vélina til að ná þvottinum. Frekar fyndið að fylgjast með honum, hann nefnilega kvartar við mann yfir því að komast ekki að þvottinum.

Snúður 198Nú er hann farinn að koma sér fyrir ofan á þvottavélinni og reynir að komast að þvottinum þannig. Hann lætur ekkert trufla sig. Hreyfir sig ekki þegar ég mæti með myndavélina til að taka myndir af honum.

Kvartar ekki einu sinni yfir að ná ekki þvottinum en reynir nú samt að teygja sig í hann eins og sést.

Ég gæti fyllt bloggið af sögum og myndum af honum Snúð en læt þetta duga í bili.

Þangað til næst....


Af sjálfvirkum vekjara....

Ef væri ekki búið að gelda Snúð þá hefði ég farið allsnarlega með hann í morgun og "snip, snip".

Best að byrja á byrjuninni. Á laugardagsmorguninn klukkan 06:10 mætti sjálfvirki vekjarinn á svæðið. Vakna, vakna, vakna. Hann tók tilhlaup eins og venjulega og skellti sér á bringuna á mér.  Ég sneri mér á hliðina og ýtti Snúð í burtu. Þá fór hann á röltið, á mér. Sprangaði fram og aftur á mjöðminni á mér. Á endanum gafst hann samt upp og ég gat sofnað aftur. Húrra.

Ég fékk frið í gærmorgun, hann hefur líklega verið svo þreyttur eftir að vakna svona óguðlega snemma á laugardagsmorguninn.

Í morgun klukkan 05:30 fékk Snúður kast í glugganum á svefnherberginu. Starrarnir voru greinilega eitthvað spennandi og hann gat augljóslega ekki mænt á þá í gegnum eldhúsgluggann, stökk heldur upp í gluggann hjá mér með ógurlegum látum. Hann hefur nú gert þetta áður en í morgun er í fyrsta skipti sem ég hef farið á fætur og tekið hann úr glugganum.

Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar en mundi svo að ég var búin að láta gelda ólátabelginn. Andsk....!

Þangað til næst.... 


Vekjaraklukkan mín....

Mikið svakalega var ég bjartsýn þegar ég lýsti yfir tilhlökkun minni við að sofa út á laugardagsmorguninn.

Ég vaknaði þegar Snúður "vekjari" skellti sér á bringuna á mér óguðlega snemma. Sem betur fer er ég þeim eiginleikum búin að ég get oftast sofnað aftur eftir svona vakningu. Ég veit ekki hvað gekk á fyrir honum en eitthvað var hann ósáttur við að hafa mig uppi í rúmi.

Ég bjó til hummust fyrir helgina, notaði uppskrift hérna af mbl. Þvílíkur viðbjóður. Ég bjó þetta til eftir minni, þurfti að kaupa kjúklingabaunir og cumin, annað var til. Notaði extra virgin ólífuolíu eins og kokkurinn gerði hérna á mbl síðunni. Verð að viðurkenna að ég er ekki mjög hrifinn af bragðinu á henni. Þegar ég var komin með allt hráefnið skellti ég því í matvinnsluvélina og setti hana í gang. Smakkaði svo á afrakstrinum og var ekki hrifinn. Mér finnst hummus nefnilega góður, komst að þeirri niðurstöðu að ólífuolían væri ónýt og grunaði að kannski hefði ég gleymt einhverju úr uppskriftinni. Auðvita kom á daginn að ég gleymdi einhverju, sítrónusafanum. Samt sem áður var það ólífuolían sem gerði útslagið. Hún var nefnilega ónýt.

Gerði svo aðra tilraun til að búa til hummus á laugardaginn eftir vakninguna æðislegu. Var með öðruvísi niðursoðnar kjúklingabaunir, venjulega ólífuolíu og mundi eftir sítrónusafanum. Nammi, namm. Mikið ofboðslega var heimilisfólkið almennilegt þegar það smakkaði á vonda hummusnum og lýsti því yfir að hann væri fínn. Whistling

Þarf að fara í Hagkaup og kaupa fleiri dósir af þessum fínu kjúklingabaunum.

Þangað til næst.... 


Snúður er eins árs í dag....

Já hann er orðin stór litla krílið sem kom á heimilið fyrir tæpu ári.

En hann er svolítið furðulegur þessi köttur. Ég ætlaði að vera svaka góð við hann og gefa honum rjómablandaða mjólk. Ekki að hann drekki mjólk. Nei hann vildi heldur ekki það góðgæti. Var bara alsæll með að fá þurrkaðar rækjur sem hann elskar út af lífinu. Mjálmaði eins og óður þegar ég dró nammistautinn fram því að hann veit hvað er í honum.

Annars tekur hann því bara rólega, nuddar sér upp við mömmu sína (mig) í von um að fá meiri rækjur. Þess á milli lætur hann sig hverfa, líklega í rannsóknarleiðangri um húsið eins og venjulega.

Þangað til næst.... 


Snúður....

Ótrúlegt, hann verður eins árs á sunnudaginn.

Man daginn sem ég fékk Snúð þá hvarf hann. Gufaði hreinlega upp. Það var leitað um allt en hvergi bólaði á kettlingnum. Svo datt Rúnari bróðir í hug að hann gæti verið undir skáp í stofunni sem ég hélt að Snúður (þá 6 vikna og 6 daga) kæmist engan vegin undir. Viti menn, þar kúrði kettlingurinn sig og vildi nú ekki koma fram. Eftir þetta var ég með kettlingapels um hálsinn. Hann bjó í hálsakotinu á mér fyrstu mánuðina. Ef ég sat og var að lesa eða horfa á sjónvarpið, svaf hann eða kúrði við hálsinn á mér.

Í dag horfi ég alltaf jafn undrandi á bilið milli gólfsins og skápsins. Hvernig í ósköpunum komst Snúður þarna undir, var hann virkilega svona lítill. Jú, hann var svona lítill. En ég er samt alltaf jafn hissa þegar ég horfi á þennan skáp.

Þangað til næst.... 


Skartgripagerð....

Loksins, loksins er ég byrjuð aftur.

Í fyrra þegar Snúður kom til mín tæplega sjö vikna og pínu, pínulítill þá gekk ég frá öllum verkfærum, perlum, steinum og tilheyrandi inn í skáp. Í raun ekki hægt annað. Hann var og er reyndar enn alveg svakalega forvitin.

Mömmu vantaði skartgripi fyrir afmæli Dúkarafélagsins í febrúar þannig að ég tók allt fram aftur og bjó til festi og lokka handa henni. Mikið ofboðslega átti Snúður bágt. Hvað.. hvað.. handa mér hefði heyrst í honum ef hann gæti talað. Skemmtilegast þótti honum þegar ég var að þræða festina, hann hélt auðvita að hann ætti að eltast við þráðinn og það sem á honum var. Ég var orðin nett pirruð á honum greyinu. Farðu.. hviss.. nei.. hættu þessu vitleysingurinn þinn, var það eina sem hann heyrði frá mér.  Þetta var fyrir þremur vikum.

Síðastliðna viku er ég búin að vera að vinna í að stytta festar, búa til eyrnalokka við festi og gera eina nýja festi. Það  urðu smá slagsmál við Snúð sem enduðu á því að ég lokaði hann inni í íbúð hjá mér. Hann var ekkert smá ósáttur og fékk hurðin að finna fyrir því. krafs.. krafs.. krafs. Ég veit ekki hvernig þetta verður hjá mér í framtíðinni með þessa skartgripagerð. Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að hann Snúður gleypi eitthvað af steinunum eða því sem ég er að vinna með og það standi í honum.

Ég verð eiginlega að koma mér upp vinnuaðstöðu sem Snúður kemst ekki að.

Þangað til næst....


Bráðabloggofnæmi....

Já það er langt síðan ég lét heyra í mér.

Ástæðan er að ég fékk algjört bloggofnæmi. Gerði heiðarlega tilraun í desember að koma mér í gang aftur en þá margfaldaðist ofnæmið og ég sá enga aðra lausn en að taka mér frí frá blessuðu blogginu.

Ég ætla nú ekki útlista af hverju ég fékk þetta bráðaofnæmi, en það lýsti sér þannig að ég gat ekki einu sinni farið inn á bloggið og lesið færslur bloggvina minn. Eins og þeir eru nú skemmtilegir pennar allir saman. Þar sem þetta bráðabloggofnæmi virðist vera í rénum, get ég látið mig hlakka til að lesa fullt af skemmtilegum bloggum. Jibbý.

Það hefur nú ekki mikið á daga mína dregið síðastliðna mánuði. Það sama er nú ekki hægt að segja um hann Snúð.

Hann hefur stækkað, reyndar ekki mikið. Hann verður 1 árs í lok næsta mánaðar, stórafmæli. Og alltaf er hann jafnskemmtilegur.

Gerir mig stundum hálfbrjálaða á kvöldin þegar hann hleypur um alla íbúð með nýjustu bráðina í kjaftinum (sem er venjulega plastpoki eða plastumbúðir sem er búið að binda í hnút) stekkur svo upp í gluggakistu í svefnherberginu mínu og lendir á rimlagluggatjöldunum á fullri ferð með viðeigandi látum. Þetta er ein af hans uppáhalds iðjum þegar ég er komin upp í rúm.

Svo er hann búin að uppgötva 'sjónvarpið'... Hann situr fyrir framan þvottavélina þegar hún er í gangi og fylgist grant með því sem er að gerast inni í henni á milli þess sem hann reyndir að komast inn í hana í gegnum hurðina. Þvottahúsið er ekki spennandi nema að þvottavélin sé í gangi.

Svo er Snúður með alveg svakalega teygjuáráttu. Allar hárteygjurnar mínar hurfu, hver á fætur annarri. Hann þefaði þær uppi. Ég hélt nú bara að hann gerði það þar sem það væri líklega lykt af mér í teygjunum. Nei, ekki aldeilis. Ég keypti nefnilega teygjur og setti spjaldið í töskuna mína, þegar ég kom heim gerði Snúður sér lítið fyrir fór með hausinn ofaní töskuna þar sem hún lá á gólfinu og kom svo með hausinn upp úr töskunni með teygjurnar í kjaftinum. Ég var snögg að taka þær af honum. Þær teygjur eru allar horfnar. Hann náði þeim aftur að lokum. Snúður hefur hvorki fyrr né síðar haft neinn áhuga á töskunni minni.

Nóg um hann í bili.

Þangaði til næst....


Næsta síða »

Höfundur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Ég er rauðhærð með krullur. Hef dútlað við hitt og þetta. Þykir gaman að elda góðan mat, lesa, horfa á góðar myndir og sjónvarpsþætti og leika við kisuna mína hann Snúð. Er hálfskrítin og stolt af því.

Spurt er....

Rottur eða kakkalakkar, hvort er verra?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband