Leita í fréttum mbl.is

Snúður....

....af því að ég hef ekkert skrifað um "litla" krílið lengi

Ég hef verið mjög samviskusöm, farið með Snúð til dýralæknis og látið gera allt sem telst nauðsynlegt fyrir ketti. Bólusetning búin og næsta skref að láta gelda hann og örmerkja.

Ég pantaði tíma í byrjun september til að láta gelda og örmerkja. Bræðrum mínum til mikillar skelfingar. Aðallega þó Gísla. Honum fannst ég ótukt að láta taka eistun á honum Snúð og vorkenndi honum ógurlega. Verst þótti honum þó tilhugsunin um að Snúður kæmi ekki til með að sakna þeirra þar sem hann hefði varla vitað að hann væri með þau.

Dagurinn fyrir aðgerðina var ósköp venjulegur. Ég í sumarfríi þannig að ég gat nú aldeilis dekrað við Snúð. Um kvöldið tók ég matinn frá honum þar sem hann átti að fasta frá miðnætti. Þurfti ekki að taka vatnið þar sem hann drekkur bara beint úr krananum.  Hann kvartaði ekki mikið yfir matarleysinu.

Þá rann stóri dagurinn upp, Snúður rúmlega 5 mánaða að fara í fyrstu og vonandi einu aðgerðina á ævinni. Ég mætti galvösk með hann og fékk að fara á bakvið með hann. Honum leist mjög vel á kanínuna sem var í búri sem við löbbuðum framhjá en varð svo fyrir vonbrigðum þegar hann var settur í búr langt frá henni. Mér var tilkynnt að ég gæti sótt hann um klukkan fimm.

Ég gerði ráð fyrir að Snúður yrði hálfmeðvitundalaus þegar ég kæmi til að sækja hann og gæti bara sett hann upp í rúm og verið í afslöppun þegar heim kæmi. Að minnsta kosti hafa kettir sem eru að koma úr aðgerðum þegar ég hef verið á Dýralæknamiðstöðinni eiginlega verið meðvitundalausir.

Nei takk. Það tók starfsmanninn sem kom með Snúð nokkrar tilraunir að koma honum í búrið sitt. Svo lá hann með hausinn klesstan við grindina sem lokar búrinu með fulla meðvitund. Honum þótti svakalega gott að láta klóra sér á hausnum og reyndi gjörsamlega að troða honum út í gegnum rimlana. Hann hafði fengið verkjalyf sem sást á augunum á honum. Augasteinarnir útþandir. Það síðasta sem mér var sagt áður en ég fór með hann heim var að ég mætti gera ráð fyrir að hann borðaði ekki neitt í bráð.

Þegar heim var komið setti ég hann upp í rúm gerði ráð fyrir að hann svæfi vímuna úr sér. Snúður var ekki alveg sáttur við það vildi komast niður á gólf en gat það ekki hjálparlaust. Þegar ég var búin að setja hann á gólfið skjögraði hann fram. Fæturnir, rófan og gólfið flæktust mikið fyrir honum. Stefnan var tekin á matinn. Ég hafði ekki fyllt á hann síðan kvöldið áður þannig að ég hljóp með skálina inn í eldhús og fyllti hana, við mættumst svo á miðri leið. Einmitt, hann borðar ekki neitt í bráð. Hefur örugglega hugsað þegar ég setti hann upp í rúm "Hvað ertu að gera stelpa. Ég er ekki syfjaður, ég er svangur." Angry

En þetta var rétt að byrja. Eftir mikið át fór hann að rölta um, réttara sagt staulast þar sem hann stóð varla í lappirnar. Sá auðvita íbúðina í nýju ljósi, svona útúr dópaður. Ég vorkenndi honum svo mikið þar sem heimilisfólkið stóð og hló að göngulaginu á honum að ég tók hann í fangið. Þar leið honum greinilega ágætlega og kom sér vel fyrir. Svo labbaði ég um og ruggaði honum eins og ungabarni. Ef ég stóð kyrr eða settist fór hann að brjótast um og vildi komast niður á gólf.  Frekar erfiður sjúklingur.

Um kvöldið fór hann að hressast og víman að renna af honum. Hann lék sér, hljóp um og réðst á kálfana á fólki sem átti sér einskis ills von. Sem sagt heimilisfólkinu. Ég fékk lítinn svefnfrið um nóttina þar sem Snúður lék sér að öllu sem hann komst í. Ég var sem betur fer í sumarfríi.

Daginn eftir var yndislegt að horfa á hann labba. Með sauma á viðkvæmum stað og göngulagið eftir því.

Síðan eru liðnir einn og hálfur mánuður. Hann er orðin um 4 kíló rúmlega sex og hálfs mánaða, var 1250 grömm 9 vikna. Þannig að litla krílið mitt er ekki lengur lítið. Smile

Þangað til næst....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Ég er rauðhærð með krullur. Hef dútlað við hitt og þetta. Þykir gaman að elda góðan mat, lesa, horfa á góðar myndir og sjónvarpsþætti og leika við kisuna mína hann Snúð. Er hálfskrítin og stolt af því.

Spurt er....

Rottur eða kakkalakkar, hvort er verra?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband