Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Gæludýr

Snúður....

....af því að ég hef ekkert skrifað um "litla" krílið lengi

Ég hef verið mjög samviskusöm, farið með Snúð til dýralæknis og látið gera allt sem telst nauðsynlegt fyrir ketti. Bólusetning búin og næsta skref að láta gelda hann og örmerkja.

Ég pantaði tíma í byrjun september til að láta gelda og örmerkja. Bræðrum mínum til mikillar skelfingar. Aðallega þó Gísla. Honum fannst ég ótukt að láta taka eistun á honum Snúð og vorkenndi honum ógurlega. Verst þótti honum þó tilhugsunin um að Snúður kæmi ekki til með að sakna þeirra þar sem hann hefði varla vitað að hann væri með þau.

Dagurinn fyrir aðgerðina var ósköp venjulegur. Ég í sumarfríi þannig að ég gat nú aldeilis dekrað við Snúð. Um kvöldið tók ég matinn frá honum þar sem hann átti að fasta frá miðnætti. Þurfti ekki að taka vatnið þar sem hann drekkur bara beint úr krananum.  Hann kvartaði ekki mikið yfir matarleysinu.

Þá rann stóri dagurinn upp, Snúður rúmlega 5 mánaða að fara í fyrstu og vonandi einu aðgerðina á ævinni. Ég mætti galvösk með hann og fékk að fara á bakvið með hann. Honum leist mjög vel á kanínuna sem var í búri sem við löbbuðum framhjá en varð svo fyrir vonbrigðum þegar hann var settur í búr langt frá henni. Mér var tilkynnt að ég gæti sótt hann um klukkan fimm.

Ég gerði ráð fyrir að Snúður yrði hálfmeðvitundalaus þegar ég kæmi til að sækja hann og gæti bara sett hann upp í rúm og verið í afslöppun þegar heim kæmi. Að minnsta kosti hafa kettir sem eru að koma úr aðgerðum þegar ég hef verið á Dýralæknamiðstöðinni eiginlega verið meðvitundalausir.

Nei takk. Það tók starfsmanninn sem kom með Snúð nokkrar tilraunir að koma honum í búrið sitt. Svo lá hann með hausinn klesstan við grindina sem lokar búrinu með fulla meðvitund. Honum þótti svakalega gott að láta klóra sér á hausnum og reyndi gjörsamlega að troða honum út í gegnum rimlana. Hann hafði fengið verkjalyf sem sást á augunum á honum. Augasteinarnir útþandir. Það síðasta sem mér var sagt áður en ég fór með hann heim var að ég mætti gera ráð fyrir að hann borðaði ekki neitt í bráð.

Þegar heim var komið setti ég hann upp í rúm gerði ráð fyrir að hann svæfi vímuna úr sér. Snúður var ekki alveg sáttur við það vildi komast niður á gólf en gat það ekki hjálparlaust. Þegar ég var búin að setja hann á gólfið skjögraði hann fram. Fæturnir, rófan og gólfið flæktust mikið fyrir honum. Stefnan var tekin á matinn. Ég hafði ekki fyllt á hann síðan kvöldið áður þannig að ég hljóp með skálina inn í eldhús og fyllti hana, við mættumst svo á miðri leið. Einmitt, hann borðar ekki neitt í bráð. Hefur örugglega hugsað þegar ég setti hann upp í rúm "Hvað ertu að gera stelpa. Ég er ekki syfjaður, ég er svangur." Angry

En þetta var rétt að byrja. Eftir mikið át fór hann að rölta um, réttara sagt staulast þar sem hann stóð varla í lappirnar. Sá auðvita íbúðina í nýju ljósi, svona útúr dópaður. Ég vorkenndi honum svo mikið þar sem heimilisfólkið stóð og hló að göngulaginu á honum að ég tók hann í fangið. Þar leið honum greinilega ágætlega og kom sér vel fyrir. Svo labbaði ég um og ruggaði honum eins og ungabarni. Ef ég stóð kyrr eða settist fór hann að brjótast um og vildi komast niður á gólf.  Frekar erfiður sjúklingur.

Um kvöldið fór hann að hressast og víman að renna af honum. Hann lék sér, hljóp um og réðst á kálfana á fólki sem átti sér einskis ills von. Sem sagt heimilisfólkinu. Ég fékk lítinn svefnfrið um nóttina þar sem Snúður lék sér að öllu sem hann komst í. Ég var sem betur fer í sumarfríi.

Daginn eftir var yndislegt að horfa á hann labba. Með sauma á viðkvæmum stað og göngulagið eftir því.

Síðan eru liðnir einn og hálfur mánuður. Hann er orðin um 4 kíló rúmlega sex og hálfs mánaða, var 1250 grömm 9 vikna. Þannig að litla krílið mitt er ekki lengur lítið. Smile

Þangað til næst....


Ný vekjaraklukka....

....hún er á fjórum fótum og heitir Snúður.

Hann vakti mig áðan. Ég vissi að klukkan var ekki orðin 8 þar sem ég stillti gömlu vekjaraklukkuna mína á átta. Þegar hann var hættur að kúra ofaná mér gáði ég hvað klukkan var. Hann hefur vakið mig klukkan 6:30. Ég bölvaði World Class fyrir að opna ekki fyrr en klukkan 8 á laugardögum. Fór bara framúr þar sem ég  er glaðvöknuð. Venjulega get ég sofnað aftur, sérstaklega ef ég vakna svona snemma. Ekki núna sem er ágætt þar sem ég er að fara í ræktina á eftir.

Ég sit núna og hlusta á vatnið renna í eldhúsvaskinn. Heyri að Snúður er að fá sér að drekka. Hann drekkur vatnið beint úr krananum. Vatnið sem ég set hjá honum er víst ekki nógu ferskt.

Það er nú samt ágætt. Snúður og ég pössum vel saman. Bæði stórfurðuleg.

Þangað til næst....

 


Honum leiðist ekki....

....og mér ekki heldur. 

Ég sat í makindum mínum að horfa á sjónvarpið og dunda mér í tölvunni. Við konur getur gert nokkra hluti í einu. Wink Sneri baki í hann Snúð og heyrði að hann var að leika sér.Snúður 182 Hugsaði ekkert út í að hvað hann væri að leika sér með. Hefði betur gert það. Ég rak upp hálfgert óp þegar ég snéri mér svo loksins við og sá hvað Snúður var búin að vera dunda sér. Hann náði í klósettrúllu inn af baði og hafði rúllað ofan af henni. Hann horfði bara á mig með sakleysisaugum og hélt áfram að leika sér með klósettpappírinn.

Ég áætla að hann sé búin að farga um 2 rúllum hingað til. Vonandi vex hann uppúr þessu.

Komst að því í morgun að ég þarf ekki vekjaraklukku. Fékk vægt taugaáfall þegar Snúður stökk á bringuna á mér. Klukkan 8:11 og ég í fríi. 

Þangað til næst....


Lightning McSnúður....

Hm, hvað er þettaÉg er farin að hafa áhyggjur af Snúð. Hugsa að einkenni CKS sé að ágerast.

Ég er farin að kalla Snúð Lightning McSnúð. Hann hleypur fram og til baka um íbúðina, klessandi á allt sem fyrir honum verður. Hraðinn á kettlingnum er svakalegur. Ég veit ekki fyrr en hann er komin í fangið á mér, en fyrir augnabliki var Snúður inni í forstofu að borða.

Lightning McSnúður does it again. Tounge

Annars er ég að fara með krílið í bólusetningu á föstudaginn eftir vinnu. Aumingja hann. Hann fær þó líklega að sofa uppí hjá mér ef hann verður eins veikur og hann varð síðast.

Ég ætla líka að leita ráða hjá dýralækninum í sambandi við Drekatréð mitt. Hann Snúður hékk á einni greininni í gærkvöldi og hún sveigðist alveg niður í gólf. Aumingja tréð mitt. Ég er búin að binda greinarnar saman en bandið sem þær eru bundnar með vekur forvitni Snúðs svo hann lætur það ekki vera. Ef einhver kann ráð við að halda honum Snúð frá trénu, þigg ég það með þökkum.

Þangað til næst....


Verður maður ekki stundum að leika sér....

Ég rakst á mjög skemmtilega síðu fyrir nokkru sem heitir Tickle.

Þar er hægt að taka próf sem segja manni allt milli himins og jarðar um mann sjálfan. Alveg frá því hvort maður hugsi nógu vel um heilsuna til þess hvert partý þemað þitt er. Það þarf að skrá sig sem notanda, en þá kemst maður í öll þessi próf. Ég hef staðið mig að því að gleyma mér og taka próf eftir próf eftir próf.

Hún er að mestu til gamans þessi síða, en það er margt áhugavert sem kemur í ljós ef maður svara sannleikanum samkvæmt.

Þangað til næst....


Snúður....ofdekraður kettlingur

Ég er að slást við hann Snúð. Hann er nú þegar búin að eyða út einni fSnúður 042ærslu áður en ég gat vistað hana. Getur ekki látið tölvuna í friði. Eins og sést. Hafði mikið fyrir því að tæla hann í burtu af tölvunni. Hann er mjög áhugasamur einmitt núna. Heyrir hljóðið í lyklaborðinu þegar ég pikka þetta inn. 

Snúður er líka frekar sérvitur. Borðar ekki matinn sinn nema að það séu tvær skálar með mat. Skrítið en satt. Um leið og ég tek aðra skálina til að reyna að venja hann af þessu hættir hann að líta við matnum.

Snúður er snyrtipinni. Finnst ég ekki nógu þrifinn þannig að hann rótar reglulega moldinni upp úr pottinum með drekatrénu svo ég ryksugi nú örugglega.

Snúður fær bara að fara út á verönd þar sem hann er enn svo lítill. Ég er enn að ákveða mig hvort hann verður inni eða úti kisa. Ég hallast að hann verði inni kisa. Kemur bara í ljós þegar hann verður eldri.

Eins og fólk veit þá eru kettir næturdýr. Ég hef fundið fyrir því. Snúður sefur og sefur, sem er ekki óeðlilegt fyrir kettlinga, nema á næturnar. Ég hef þurft að hafa lokað inn til mín þar sem hendurnar og fæturnir á mér eru uppáhaldsleikföngin hans, að minnsta kosti þegar ég er að reyna sofa. Það dugar reyndar ekki að loka á hann, hann krafsar í hurðina og mjálmar eymdarlega þangað til ég vakna.

Snúður er mjög hrifinn af blómum. Hann lyktar af öllum blómunum úti á verönd og reyndir svo að éta þau sem honum líst best á. Það er ekki alslæmt.

Því miður hrífst hann jafn mikið af plöntunum hjá mér. Það grynnkar á moldinni í pottinum hjá drekatrénu og hann Snúður reynir að klifra í því. Það er rúmlega tveggja metra hátt í. Mér þykir svo erfitt að skamma hann fyrir þetta, þó ég geri það, því hann verður alveg miður sín og rífur bara kjaft. Æi þið vitið sem eigið kisur hvernig þær mjálma þegar þær bara skilja ekki af hverju er verið að skamma þær og eru sakleysið uppmálað.

Hann reyndar skammast sín pínu þegar ég er að reka hann frá drekatrén því hann skríður út í horn og horfir á mig svo ég fæ samviskubit. Ég reyndi að setja friðarlilju á skrifborðið hjá mér. Ónei. Snúður lét hana ekki í friði. Réðst á blöðin braut þau af og japlaði svo bara á þeim.

Snúður er nú bara kettlingur ennþá. Ekki einu sinni orðin fjögurra mánaða. Hann er góður til heilsunar og stækkar jafnt og þétt. Ég er búin að fara með hann tvisvar til dýralæknis. Fór með hann á Dýralæknamiðstöðina í Grafarholti og lét bólusetja hann fyrir nokkrum vikum. Hann fær svo seinni sprautuna á föstudaginn í næstu viku. Ætla láta gera þetta fyrir helgina svo ég geti hugsað um ef hann veikist eins mikið og hann veiktist af fyrri sprautunni. Svo þarf að gelda hann eftir nokkra mánuði. Hann verður örmerktur um leið og hann verður geldur. Steinunn dýralæknir sagði að það væri best að gera þetta saman.

Þangað til næst....


« Fyrri síða

Höfundur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Ég er rauðhærð með krullur. Hef dútlað við hitt og þetta. Þykir gaman að elda góðan mat, lesa, horfa á góðar myndir og sjónvarpsþætti og leika við kisuna mína hann Snúð. Er hálfskrítin og stolt af því.

Spurt er....

Rottur eða kakkalakkar, hvort er verra?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 21058

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband