Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Snúður er eins árs í dag....

Já hann er orðin stór litla krílið sem kom á heimilið fyrir tæpu ári.

En hann er svolítið furðulegur þessi köttur. Ég ætlaði að vera svaka góð við hann og gefa honum rjómablandaða mjólk. Ekki að hann drekki mjólk. Nei hann vildi heldur ekki það góðgæti. Var bara alsæll með að fá þurrkaðar rækjur sem hann elskar út af lífinu. Mjálmaði eins og óður þegar ég dró nammistautinn fram því að hann veit hvað er í honum.

Annars tekur hann því bara rólega, nuddar sér upp við mömmu sína (mig) í von um að fá meiri rækjur. Þess á milli lætur hann sig hverfa, líklega í rannsóknarleiðangri um húsið eins og venjulega.

Þangað til næst.... 


Snúður....

Ótrúlegt, hann verður eins árs á sunnudaginn.

Man daginn sem ég fékk Snúð þá hvarf hann. Gufaði hreinlega upp. Það var leitað um allt en hvergi bólaði á kettlingnum. Svo datt Rúnari bróðir í hug að hann gæti verið undir skáp í stofunni sem ég hélt að Snúður (þá 6 vikna og 6 daga) kæmist engan vegin undir. Viti menn, þar kúrði kettlingurinn sig og vildi nú ekki koma fram. Eftir þetta var ég með kettlingapels um hálsinn. Hann bjó í hálsakotinu á mér fyrstu mánuðina. Ef ég sat og var að lesa eða horfa á sjónvarpið, svaf hann eða kúrði við hálsinn á mér.

Í dag horfi ég alltaf jafn undrandi á bilið milli gólfsins og skápsins. Hvernig í ósköpunum komst Snúður þarna undir, var hann virkilega svona lítill. Jú, hann var svona lítill. En ég er samt alltaf jafn hissa þegar ég horfi á þennan skáp.

Þangað til næst.... 


Skartgripagerð....

Loksins, loksins er ég byrjuð aftur.

Í fyrra þegar Snúður kom til mín tæplega sjö vikna og pínu, pínulítill þá gekk ég frá öllum verkfærum, perlum, steinum og tilheyrandi inn í skáp. Í raun ekki hægt annað. Hann var og er reyndar enn alveg svakalega forvitin.

Mömmu vantaði skartgripi fyrir afmæli Dúkarafélagsins í febrúar þannig að ég tók allt fram aftur og bjó til festi og lokka handa henni. Mikið ofboðslega átti Snúður bágt. Hvað.. hvað.. handa mér hefði heyrst í honum ef hann gæti talað. Skemmtilegast þótti honum þegar ég var að þræða festina, hann hélt auðvita að hann ætti að eltast við þráðinn og það sem á honum var. Ég var orðin nett pirruð á honum greyinu. Farðu.. hviss.. nei.. hættu þessu vitleysingurinn þinn, var það eina sem hann heyrði frá mér.  Þetta var fyrir þremur vikum.

Síðastliðna viku er ég búin að vera að vinna í að stytta festar, búa til eyrnalokka við festi og gera eina nýja festi. Það  urðu smá slagsmál við Snúð sem enduðu á því að ég lokaði hann inni í íbúð hjá mér. Hann var ekkert smá ósáttur og fékk hurðin að finna fyrir því. krafs.. krafs.. krafs. Ég veit ekki hvernig þetta verður hjá mér í framtíðinni með þessa skartgripagerð. Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að hann Snúður gleypi eitthvað af steinunum eða því sem ég er að vinna með og það standi í honum.

Ég verð eiginlega að koma mér upp vinnuaðstöðu sem Snúður kemst ekki að.

Þangað til næst....


Bráðabloggofnæmi....

Já það er langt síðan ég lét heyra í mér.

Ástæðan er að ég fékk algjört bloggofnæmi. Gerði heiðarlega tilraun í desember að koma mér í gang aftur en þá margfaldaðist ofnæmið og ég sá enga aðra lausn en að taka mér frí frá blessuðu blogginu.

Ég ætla nú ekki útlista af hverju ég fékk þetta bráðaofnæmi, en það lýsti sér þannig að ég gat ekki einu sinni farið inn á bloggið og lesið færslur bloggvina minn. Eins og þeir eru nú skemmtilegir pennar allir saman. Þar sem þetta bráðabloggofnæmi virðist vera í rénum, get ég látið mig hlakka til að lesa fullt af skemmtilegum bloggum. Jibbý.

Það hefur nú ekki mikið á daga mína dregið síðastliðna mánuði. Það sama er nú ekki hægt að segja um hann Snúð.

Hann hefur stækkað, reyndar ekki mikið. Hann verður 1 árs í lok næsta mánaðar, stórafmæli. Og alltaf er hann jafnskemmtilegur.

Gerir mig stundum hálfbrjálaða á kvöldin þegar hann hleypur um alla íbúð með nýjustu bráðina í kjaftinum (sem er venjulega plastpoki eða plastumbúðir sem er búið að binda í hnút) stekkur svo upp í gluggakistu í svefnherberginu mínu og lendir á rimlagluggatjöldunum á fullri ferð með viðeigandi látum. Þetta er ein af hans uppáhalds iðjum þegar ég er komin upp í rúm.

Svo er hann búin að uppgötva 'sjónvarpið'... Hann situr fyrir framan þvottavélina þegar hún er í gangi og fylgist grant með því sem er að gerast inni í henni á milli þess sem hann reyndir að komast inn í hana í gegnum hurðina. Þvottahúsið er ekki spennandi nema að þvottavélin sé í gangi.

Svo er Snúður með alveg svakalega teygjuáráttu. Allar hárteygjurnar mínar hurfu, hver á fætur annarri. Hann þefaði þær uppi. Ég hélt nú bara að hann gerði það þar sem það væri líklega lykt af mér í teygjunum. Nei, ekki aldeilis. Ég keypti nefnilega teygjur og setti spjaldið í töskuna mína, þegar ég kom heim gerði Snúður sér lítið fyrir fór með hausinn ofaní töskuna þar sem hún lá á gólfinu og kom svo með hausinn upp úr töskunni með teygjurnar í kjaftinum. Ég var snögg að taka þær af honum. Þær teygjur eru allar horfnar. Hann náði þeim aftur að lokum. Snúður hefur hvorki fyrr né síðar haft neinn áhuga á töskunni minni.

Nóg um hann í bili.

Þangaði til næst....


Snúður....

....af því að ég hef ekkert skrifað um "litla" krílið lengi

Ég hef verið mjög samviskusöm, farið með Snúð til dýralæknis og látið gera allt sem telst nauðsynlegt fyrir ketti. Bólusetning búin og næsta skref að láta gelda hann og örmerkja.

Ég pantaði tíma í byrjun september til að láta gelda og örmerkja. Bræðrum mínum til mikillar skelfingar. Aðallega þó Gísla. Honum fannst ég ótukt að láta taka eistun á honum Snúð og vorkenndi honum ógurlega. Verst þótti honum þó tilhugsunin um að Snúður kæmi ekki til með að sakna þeirra þar sem hann hefði varla vitað að hann væri með þau.

Dagurinn fyrir aðgerðina var ósköp venjulegur. Ég í sumarfríi þannig að ég gat nú aldeilis dekrað við Snúð. Um kvöldið tók ég matinn frá honum þar sem hann átti að fasta frá miðnætti. Þurfti ekki að taka vatnið þar sem hann drekkur bara beint úr krananum.  Hann kvartaði ekki mikið yfir matarleysinu.

Þá rann stóri dagurinn upp, Snúður rúmlega 5 mánaða að fara í fyrstu og vonandi einu aðgerðina á ævinni. Ég mætti galvösk með hann og fékk að fara á bakvið með hann. Honum leist mjög vel á kanínuna sem var í búri sem við löbbuðum framhjá en varð svo fyrir vonbrigðum þegar hann var settur í búr langt frá henni. Mér var tilkynnt að ég gæti sótt hann um klukkan fimm.

Ég gerði ráð fyrir að Snúður yrði hálfmeðvitundalaus þegar ég kæmi til að sækja hann og gæti bara sett hann upp í rúm og verið í afslöppun þegar heim kæmi. Að minnsta kosti hafa kettir sem eru að koma úr aðgerðum þegar ég hef verið á Dýralæknamiðstöðinni eiginlega verið meðvitundalausir.

Nei takk. Það tók starfsmanninn sem kom með Snúð nokkrar tilraunir að koma honum í búrið sitt. Svo lá hann með hausinn klesstan við grindina sem lokar búrinu með fulla meðvitund. Honum þótti svakalega gott að láta klóra sér á hausnum og reyndi gjörsamlega að troða honum út í gegnum rimlana. Hann hafði fengið verkjalyf sem sást á augunum á honum. Augasteinarnir útþandir. Það síðasta sem mér var sagt áður en ég fór með hann heim var að ég mætti gera ráð fyrir að hann borðaði ekki neitt í bráð.

Þegar heim var komið setti ég hann upp í rúm gerði ráð fyrir að hann svæfi vímuna úr sér. Snúður var ekki alveg sáttur við það vildi komast niður á gólf en gat það ekki hjálparlaust. Þegar ég var búin að setja hann á gólfið skjögraði hann fram. Fæturnir, rófan og gólfið flæktust mikið fyrir honum. Stefnan var tekin á matinn. Ég hafði ekki fyllt á hann síðan kvöldið áður þannig að ég hljóp með skálina inn í eldhús og fyllti hana, við mættumst svo á miðri leið. Einmitt, hann borðar ekki neitt í bráð. Hefur örugglega hugsað þegar ég setti hann upp í rúm "Hvað ertu að gera stelpa. Ég er ekki syfjaður, ég er svangur." Angry

En þetta var rétt að byrja. Eftir mikið át fór hann að rölta um, réttara sagt staulast þar sem hann stóð varla í lappirnar. Sá auðvita íbúðina í nýju ljósi, svona útúr dópaður. Ég vorkenndi honum svo mikið þar sem heimilisfólkið stóð og hló að göngulaginu á honum að ég tók hann í fangið. Þar leið honum greinilega ágætlega og kom sér vel fyrir. Svo labbaði ég um og ruggaði honum eins og ungabarni. Ef ég stóð kyrr eða settist fór hann að brjótast um og vildi komast niður á gólf.  Frekar erfiður sjúklingur.

Um kvöldið fór hann að hressast og víman að renna af honum. Hann lék sér, hljóp um og réðst á kálfana á fólki sem átti sér einskis ills von. Sem sagt heimilisfólkinu. Ég fékk lítinn svefnfrið um nóttina þar sem Snúður lék sér að öllu sem hann komst í. Ég var sem betur fer í sumarfríi.

Daginn eftir var yndislegt að horfa á hann labba. Með sauma á viðkvæmum stað og göngulagið eftir því.

Síðan eru liðnir einn og hálfur mánuður. Hann er orðin um 4 kíló rúmlega sex og hálfs mánaða, var 1250 grömm 9 vikna. Þannig að litla krílið mitt er ekki lengur lítið. Smile

Þangað til næst....


Bílabíó....

Ég fór að passa Sigþór og Bergþór á miðvikudagskvöldið þar sem foreldrarnir ætluðu í bílabíó.

Þegar ég var nýkomin úr vinnunni hringdi Ragnhildur og tilkynnti mér að ég yrði að mæta í kvöldmat þar sem Óli keypti súperhamborgara (140g). Jú, jú. Ég "neyddist" víst til að koma fyrr en áætlað var. Wink Hamborgarar með beikoni og alles.

Þegar ég var mætt á svæðið fór Óli að undirbúa hamborgaraeldunina. Rosa erfitt, tekið upp George Foreman grillið og því stungið í samband. Eftir 1 stk. risahamborgara og smá franskar valt maður á hlið út af stólnum í eldhúsinu. Ég sá fram á að það besta fyrir mig í stöðunni væri að fara með strákana í bað svo að ég freistaðist ekki til að narta í franskarnar sem voru eftir handa Ragnhildi og Davíð.

Úr baði var farið í spiderman nærföt, Sigþór í Harry Potter náttföt og Bergþór í súpermann náttföt með skikkju um hálsinn. Ég skreið svo með þá upp í sófa til að lesa og ekki leið á löngu þar til Skuggi var mættur. Hann kom sér fyrir í fanginu á mér og malaði og malaði.

Síðan var skriðið upp í hjónarúm lesið smá og svo upp í koju. Ég lagðist í neðri kojuna með honum Bergþóri og var ekki lengi að steinsofna. Já ég. Svaf reyndar ekki nema í rúman hálftíma en hefði gjarnan viljað sofa lengur.

Mér til mikillar gleði datt ég inn á TCM þar sem var verið að sýna Victor/Victoria með Julie Andrews. Æðisleg mynd. Þegar hún var alveg að verða búin, um 11, duttu Ragnhildur og Óli inn um dyrnar. Bíddu, bíddu. Ég átti nú ekki von á þeim fyrr en um 12. þau gáfust víst upp á bíóinu eins og margir aðrir og yfirgáfu svæðið.

Þetta var víst ferlega misheppnað bílabíó. Talið 2 mínútum á eftir og einhverjir kastarar fyrir ofan vegginn sem myndinni var varpað á, kveikt á þeim og þeim var beint í átt að áhorfendum sem þurftu að píra í gegnum ljósin á myndina. Frekar leiðinlegt þar sem það var greinilega hörkustemming fyrir þessu sem sást á góðri mætingu.

Niðurstaðan hjá þeim hjónakornum varð að þau hefðu betur setið heima og horft á Victor/Victoria með mér.

Þangað til næst....


Eftirlýstur....

Ég lýsi hér með eftir mánudeginum.

Á þriðjudaginn fannst mér vera mánudagur, fattaði á miðvikudeginum að það væri í raun miðvikudagur en ekki þriðjudagur. En viti menn í gær fannst mér samt vera miðvikudagur. Ég var búin að vera um 2 tíma í vinnunni þegar ég fattaði að það væri fimmtudagur. Er nú samt alveg með það á hreinu að það er föstudagur í dag. Smile

Hvað varð þá eiginlega um mánudaginn. Það eru nokkrar mögulegar útskýringar á hvarfi hans.

Ég gekk í svefni allan daginn. Sleeping

Ég er viss um að ég gekk ekki í svefni þar sem ég get ómögulega keyrt í vinnuna í morgunumferðinni í Reykjavík sofandi. Maður þarf sko að vera vakandi og rúmlega það.

Mér var rænt af geimverum. Alien

Ég get ekki ímyndað mér að einhverjar geimverur hafi áhuga á að skoða mig. Mér þykir líka frekar ólíklegt að fólki sé rænt af geimverum. Við erum svo miklir villimenn að það er varla mikið hægt að læra af okkur.

Mánudagurinn var felldur niður í þessari viku. Whistling

Ég tel víst að ég hafi misst af fundinum þar sem ákveðið var að sleppa mánudeginum í þessari viku.

En ef einhver veit hvað varð af mánudeginum endilega látið mig vita.

Þangað til næst....


Honum leiðist ekki....

....og mér ekki heldur. 

Ég sat í makindum mínum að horfa á sjónvarpið og dunda mér í tölvunni. Við konur getur gert nokkra hluti í einu. Wink Sneri baki í hann Snúð og heyrði að hann var að leika sér.Snúður 182 Hugsaði ekkert út í að hvað hann væri að leika sér með. Hefði betur gert það. Ég rak upp hálfgert óp þegar ég snéri mér svo loksins við og sá hvað Snúður var búin að vera dunda sér. Hann náði í klósettrúllu inn af baði og hafði rúllað ofan af henni. Hann horfði bara á mig með sakleysisaugum og hélt áfram að leika sér með klósettpappírinn.

Ég áætla að hann sé búin að farga um 2 rúllum hingað til. Vonandi vex hann uppúr þessu.

Komst að því í morgun að ég þarf ekki vekjaraklukku. Fékk vægt taugaáfall þegar Snúður stökk á bringuna á mér. Klukkan 8:11 og ég í fríi. 

Þangað til næst....


Kónguló, kónguló vísaðu mér í berjamó....

Ég og mamma fórum í berjamó í gær. Við fórum upp að Tröllafossi í Mosfellsdal og vorum komnar þangað rétt uppúr tólf.

Það var allt morandi í berjum. Ég skellti mér strax í tínsluna og fann þvílíkt magn af bláberjum, bæði venjulegum og eðalbláber. Ég var rúman klukkutíma að fylla eins og hálfs lítra fötu af bláberjum og fór þá til að tæma fötuna og fá mér að drekka. Ekkert smá þyrst eftir allt þetta klifur. Já ég var nefnilega að tína í ansi brattri brekku. Útsýnið alveg æðislegt og ég tók auðvita ekki myndavélina með. Frown

Náði mér svo í aðra fötu svo ég gæti tínt bæði bláber og krækiber, vildi ekki vera að blanda þeim saman. Tíndi rúman lítra af bláberjum og eitthvað svipað af krækiberjum.

Mamma tíndi reyndar mikið meira en ég. Hún er berjatínslumanneskja dauðans. Devil Notar báðar hendur og afköstin alveg svakaleg. Hún sagði mér að þegar hún var krakki var hún stundum fengin að láni til að fara í berjatínslu. Ég áhugaberjatínslumanneskjan nota bara aðra höndina til að tína.Crying

Það var líka fullt af kóngulóm og býflugum, æðislegt að heyra suðið í býflugunum. Svo var ég alltaf að trufla kóngulærnar með tínslunni og þær hlupu undan höndunum á mér. Smile

Þetta var alveg rosalega gaman og ekki skemmdi fyrir að veðrið var frábært. Cool

Fengum ís, rjóma og ber í eftirrétt í gærkvöldi. Restin verður fryst og sultuð næstu daga.

Þangað til næst....


Heimatilbúin sulta....

....er mikið betri en sultan úr búðinni. W00t 

Ég held ég fari að gera meira af því að sulta. Síðast þegar ég sultaði keypti ég jarðaber og hindber, fersk auðvita, og bjó til sultu úr þeim. Var með um helmingi meira af jarðaberjum en hindberjum.

Hún var alveg ótrúlega góð jarðaberja/hindberjasultan mín. Ég notaði hana eiginlega bara spari. Fann eiginlega til þegar hún var búin, ætlaði auðvita að búa til meira en lét aldrei verða af því. Dríf mig bara í þessu núna. Smile

Ætla líka að fara í berjamó aftur í vikunni eða um helgina með mömmu. Förum kannski eitthvað lengra en upp að Tröllafossi ef við förum um helgina.

Gunnhildur 070Hérna er svo mestöll bláberjasultan komin í krukkur.

Best að fara að sulta meira. Whistling

Þangað til næst....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Ég er rauðhærð með krullur. Hef dútlað við hitt og þetta. Þykir gaman að elda góðan mat, lesa, horfa á góðar myndir og sjónvarpsþætti og leika við kisuna mína hann Snúð. Er hálfskrítin og stolt af því.

Spurt er....

Rottur eða kakkalakkar, hvort er verra?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 21089

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband