Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Sumar og sól....

Mikið hafði ég það rosalega gott í dag. Skrapp í Nóatún og keypti hamborgara í hádeginu og voru þeir grillaðir og hafðir í hádegismat.

Eftir matinn lagðist ég bara út á verönd, bar á mig sólvörn og fór að lesa Ísfólkið. Sneri mér reglulega og bar á mig sólvörn svo ég brynni ekki. Mikið ofboðslega var ég bjartsýn. Ég þarf sólvörn með súperstyrk. Ég brann s.s. á bakinu. Svíður pínu. Annars er ég fín, kannski smá rauð í framan. Þetta kemur af því að vera rauðhærður. Ég verð alltaf að passa mig rosalega vel í sólinni. Hef reyndar ekki lagst út í sólbað í mörg ár. En maður freistast í þessu yndislega veðri sem hefur verið í dag og undanfarna daga.

Ekki má heldur gleyma honum Snúð. Hann fékk að fara út, fer reyndar bara út á verönd þar sem hann er svo lítill ennþá og hann á eftir að fá seinni bólusetninguna. Það var alveg rosalega erfitt fyrir hann að vera úti. Allar þessar flugur sem hann náði ekki í. Eymdarmjálmið í honum var bara fyndið. Ég fékk nú hálfgert sjokk þegar hann fór að eltast við býflugu, en býflugan hafði sem betur fer vit fyrir honum og forðaði sér.

Þegar leið á daginn fór að hægjast á Snúð, á endanum kom hann sér bara fyrir í skugga og fékk sér að drekka einstöku sinnum. Því auðvita var skál með vatni handa honum út á verönd. Ekki annað hægt í þessum hita. Þegar þetta er skrifað liggur hann bara og sefur. Alltof erfitt að vera allan daginn úti.

Það er svo gaman þegar veðrið leikur við okkur.

Þangað til næst....


Ég fór til London í síðustu viku....

Já þá hefur maður loksins komið til London.

Það er nefnilega svo fínt að vera í Vildarklúbbi Icelandair. Það var tvöfalt punktatilboð í október hjá þeim og ég stökk á það og fékk mér miða til London. Reyndi eftir bestu getu að plata einhvern með mér, en það voru allir búnir að plana útlandaferðirnar og ætluðu ekki að hætta við eða fara í aðra ferð. Það munaði mjög litlu að ég fengi frænku mína með. Ef ég hefði talað við hana hálftíma fyrr! Bara fyndið. Hún hafði nefnilega verið "plötuð" til að fara til Tallin rétt áður en ég hringdi.

Þá var að finna gistingu. Ég var mikið að spá í hótel sem mamma gisti á þegar hún fór út í fyrra þar sem það var rétt hjá Oxfort Street. Ég var endalaust inni á www.visitlondon.com að skoða tilboð á gistingu þar. Ég álpaðist svo óvart inn á Bed and Breakfast linkinn og fann þar lítið hótel sem heitir The Cardiff www.cardiff-hotel.com  steinsnar frá Paddington stöð. Það var reyndar skrítið hvernig ég ákvað að gista þar, ég var nefnilega búin að liggja yfir nokkrum hótelum að reyna ákveða á hverju þeirra ég ætlaði að gista. Datt svo bara inn á þetta og bókaði strax. Fjórar nætur, fimmtudag til mánudags.

Þá var það að plana eyðsluna, hehehe! Það fyrsta sem fór á innkaupalistann minn var Planet Hollywood glas handa bróðir mínum þar sem hann hafði brotið glasið sitt rétt eftir að hann kom með það heim. Það gaf mér fyrirtaks afsökun að gera mér ferð þangað og fá mér að borða. Og mikið ofsalega var maturinn góður. Namm. Svo skoðaði ég heimasíður hjá hinu ýmsu fyrirtækjum sem eru með búðir á Oxford Street og punktaði hjá mér hvað mig langaði í. Auðvita mátti heldur ekki gleyma jólagjöfum handa mömmu og co.

Kreditkort, gjaldeyrir, flugmiði, vegabréf, ferðataska og ég sjálf. Tilbúin til brottfarar.

Mamma keyrði mig og ég var komin út á völl klukkan 7, tékkaði mig inn og fór í fríhöfnina. Þar blasti við manni Stefán Hilmarsson, Kristján einhversson (sorry, man aldrei hvers son hann er), Bubbi og einhver stelpa sem ég veitt ekkert hver er. Þau voru öll að árita geisladiskana sína þannig að ég geri ráð fyrir að stelpan sé söngkona, kannski einhver úr Idol. Það var líf og fjör þarna þar sem fullt af fólki var á leið til útlanda. Ég keypti mér langloku og sódavatn og snæddi það í rólegheitum. Keypti mér svo Séð og Heyrt og rölti að brottfararhliðinu.

Brottför klukkan 9, seinkaði um 5 mínutur. Flugið var fínt en lendingin var sú versta sem ég hef lent í. Ekki það að hún hafi verið hræðileg, það var bara svo ofboðslega mikil ókyrrð í aðfluginu. Flugvélin lenti klukkan 12:05, á áætlun miðaða við seinkunina. Þá var það Heathrow Express lestin www.heathrowexpress.com . Hún gengur frá Heathrow að Paddington stöð á 15 mínútna fresti og var besti kosturinn fyrir mig. Ég borgaði 14 og hálft pund fyrir miðan að Paddington og ferðin tók um 20 mínútur. Leigubíll hefði kostað mig 40 til 50 pund og tekið lengri tíma, að ég held. Frá Paddington lá leiðin að hótelinu, svona þegar maður fann leiðina út af stöðinni. Hehehe. Ég var 4-5 mínútur að labba þetta. Óskaplega þægilegt.

Henti farangrinum inn á herbergi og skellti mér niður í bæ. Það allra fyrsta sem ég gerði var að fara í Beadworks búðina á Tower Street. Það var alveg ágæt að koma þangað og sjá það sem þeir voru að selja með berum augum, ekki bara á ljósmyndum á netinu. Ég varð samt fyrir svakalegum vonbrigðum þar sem úrvalið var frekar aumingjalegt miðað við á beadworks.co.uk og líka dýrara. Mér sýndist það að minnsta kosti, þrátt fyrir að ég borgi flutningsgjald og toll af því sem ég panta af netinu. Eyddi tæplega 25 pundum og fór ekki aftur eins og ég hafði planað.

Þá var það Oxford Street. Ég fór í nokkrar búðir og verslaði smávegis. Hálf skreið til baka á hótelið, eftir að ég var búin að fara í apótek og ná mér í plástur og sótthreinsi. Ég fékk nefnilega þessa svaka blöðru á stóru tánna við allt þetta labb. Það voru ekki skórnir, heldur sokkarnir sem ég var í. Þeir fóru í ruslið. Ég hataði þessa sokka hvort eð var.

Þegar ég var búin að búa um ´sárin´ fór ég á Aberdeen Steakhouse rétt hjá hótelinu. Mæli ekki með þeim stað. En svona til sárabóta þá hitti ég fullorðin hjón frá Danmörk og spjallaði heilmikið við konuna. Hún var færeysk en hafði farið til Danmerkur sem krakki til að fara í skóla og búið þar síðan. Þau vissu heilmikið um Ísland og var mjög gaman að hafa hitt þessi hjón.

Ég hafði stillt vekjaraklukkuna á símanum á 8 svo ég gæti fengið mér morgunmat. Það fylgdir nefnilega alvöru enskur morgunverður með herbergjunum alveg svakalega góður. Hann er borinn fram frá 7-9 en ég gat engan veginn komið mér á fætur, ég var alveg búin á því og svaf til klukkan 10. Skamm, skamm.

Svo verslaði ég bara og verslaði. Keypti mér fullt af fötum, DVD og fleira. Fór vísvitandi með hálftóma ferðatösku út. Keypti mér littla tösku til að hafa í handfarangri og hafði fötin sem ég notaði úti í henni.

Ég fór á Breska safnið á sunnudeginum. Varð fyrir miklum vonbrigðum. Byggingin sem safnið er í er æðisleg. Ekki fannst mér til mikils koma það sem var inni á safninu. Það var stór hluti af safninu lokaður, ég gat þar af leiðandi ekki skoðað það sem mig langaði til. Það er reyndar ofsalega skemmtileg sýning í sérsal á safninu sem heitir "Taboo and Power in the Pacific". Hún bjargaði ferðinni á safnið. Ég er kannski svona mikið snobb, en mér fannst miklu skemmtilegra að fara á Egypska safnið í Kaíró.

Á mánudeginum fór ég í síðustu ferðina niður á Oxford Street. Fór í HMV til að kaupa Cars og Planet Earth sem voru að koma út. Keypti auðvita nokkrar myndir í viðbót, súperman bol handa Gísla bróðir og Goonies bol handa Rúnari P. Þeir voru ánægðir með þá sem er kannski engin furða. Ég var búin að segjast ætla að kaupa boli með "my sister went to london and all I got was this lousy t-shirt" áprentað. Mér fannst Goonies og súperman mikið flottari og mjög viðeigandi. Heheheh.

Ég eyddi restinni deginum í lobbýinu á hótelinu þar sem flugið heim var ekki fyrr en klukkan níu um kvöldið. Skrapp reyndar út nokkrum sinnum til að kaupa mér að borða. Ég var mjög ánægð með gistinguna. Hótelið er gamalt en snyrtilegt. Sama fjölskyldan er búin að reka þetta í meira en 40 ár. Það var lika gaman að sitja í andyrinu og fylgjast með fólkinu sem var að fara og koma. Það er nóg að gera hjá þeim og meirihlutinn af þeim sem skráðu sig inn á meðan ég beið voru að koma aftur og höfðu gist oft áður. Ég ætla að gista þarna þegar ég fer aftur til London. Um 6 leytið fór ég svo að Paddington til að taka Heathrow Express á völlinn. Það tók enga stund að tékka mig inn, en svo byrjaði ævintýrið!

Vá maður það er alveg gengið út í öfgar eftirlitið við innganginn á fríhöfninni á Heathrow. Ég var með plastpoka með tveimur bókum í og sódavatni, litla ferðatösku og handtöskuna mína. Það voru sem betur fer starfsmenn við inngagninn að aðstoða fólk og dreyfa zip-lock pokum fyrir vökvan í handfarangri. Ég náði í einn og bað hann um að taka sódavatnið og henda því, ekker mál. En þá kom hjá honum að ég væri með þrjár töskur/poka. Ég var ekki alveg samþykk því að ég væri með þrennt þar sem ég taldi að handtaskan væri hverrar konu réttur. Ónei. Ég tók bækurnar úr pokanu og setti svo handtöskuna í litlu ferðatöskuna, það er nefnilega hægt að stækka hana. Æi þið vitið með rennilás í lokinu. Nei, ég kom henni ekki fyrir í mæligrindina. Á endanum stóð ég á töskunni til að minnka hana, þið vitið renna aftur fyrir stækkunina og þá var hún komin í rétta stærð. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég var komin inn á fríhafnarsvæðið var að opna litlu ferðatöskuna og taka handtöskuna mína úr henni. Almáttugur. Það fyndasta við þetta allt er að inni í fríhöfninni getur þú keypt ferðatöskur og allt mögulegt þannig að þú gætir farið um borð í vélina með 20 töskur og 15 poka. Þess vegna. Fáránlegt. En auðvita ferlega fyndið eftirá.

Fríhöfnin á Heathrow er dýr. Ég verslaði bara í Swarovski búðinni, lítin sætan kristalfrosk og svo keypti ég mér að borða og drekka. Hálftíma fyrir brottför kom tilkynning um brottfararhliðið. Ég kom mér þangað og svo var hleypt inn í vél. Það var einungis nokkurra mínutna seinkun á brottför, þrátt fyrir það lenti vélin á réttum tíma á Keflavíkurflugvelli. Mikið var gott að koma heim.

Það sem ég hafði ætlað að kaupa í fríhöfninni á Heathrow, en fundist svo dýrt, keypti ég í fríhöfninni heima. Það var töluvert ódýrara en á Heathrow. Mamma og pabbi biðu eftir mér og svo lá leiðin heim. Mikið rosalega elska ég rúmið mitt mikið.

Þangað til næst....


Ég er þá vínberjaþjófur...

Ég var að hlusta á fréttirnar á rás 2.

Ekki það að ég versli mikið í Hagkaup, hvað þá á Akureyri. Ég man nú heldur reyndar ekki alveg hvenær ég stal vínberi síðast og það var ekki í Hagkaup. Það var í Bónus síðast þegar ég keypti vínber.

Fréttin var sú að úr Hagkaup á Akureyri væri stolið jafnvirði 6 milljón króna af vínberjum árlega. Upphæðin fékkst með því að reikna út færslur á kassa á mánuði. Svo var gefið að hver kúnni/færsla stæli 2 vínberjum og líklega væri einhver með kúnnanum og sá aðili stæli einnig 2. Viðmælandi fréttamannsins á rás 2 sagði að hún teldi það ekki þjófnað ef fólk spyrði hvort það mætti smakka. Frekar fáránlegur útreikningur. Með þessu er verið að gefa í skyn að hver einasti kúnni steli vínberum í hver einasta skipti sem þeir koma í Hagkaup og einnig þeir sem eru með þeim. Ég skildi fréttina allavega þannig.

Síðast þegar ég s.s. stal vínberjum var í bónus þar sem ég var að kaupa vínber og það var ekki starfsmaður nálægt til að spyrja hvort ég mætti smakka. Ég nennti ekki að hlaupa um alla búð til að finna starfsmann til að spyrja.

Ég stel heldur ekki vínberum í hvert skipti sem ég fer að versla, bara þegar ég ætla að kaupa vínber og stel þá venjulega af klasanum sem ég er búin að velja mér.

Og svona í lokin. Það getur oft verið erfitt að hafa upp á starfsfólki í matvöruverslunum. Ég geri ekki ráð fyrir að fólk hlaupi um búðina til að hafa upp á starfsmanni bara til að spyrja hvort það megi smakka vínber.

Þangað til næst....


Afmælið hans Sigþórs....

Já það var fjör í afmælinu hans Sigþórs. Við gáfum honum stafaspilið og svo fékk Bergþór bróðir hans spiderman sokka og Við lesum. Þá getur Ragnhildur farið að kenna strákunum stafina og lesið bókina með þeim. Sigþór á nefnilega svo mikið af dóti að okkur fannst alger óþarfi að gefa honum dót.

Það var auðvita nammi gott að borða. Heitur brauðréttur, súkkulaði kökur, pönnukökur, salat og kex og kókosbolluterta. Mmmmmm. Það eina sem skyggði á afmælið var að Bergþór greyið var veikur og leið frekar illa. Hann vildi að mamma sín gengi um gólf með sig, hann var svo pirraður. Svo mátti ég reyndar halda á honum. Við enduðum svo í Lazy-boy að lesa. Bergþór hafði greinilega ekki orku í afmælishasar.

Annars var helgin ekki öðrvísi en venjulega. Sofa, borða, horfa á sjónvarpið, sauma, slappa af o.s.frv.

Þangaði til næst....


Hann á afmæli í dag....

Já Óli pabbi skæruliðanna á afmæli í dag. Ragnhildur hringdi í mig rétt fyrir fjögur og bauð mér í mat í gær, ég þurfti ekki að koma með gjöf en gerði það nú samt. Ég var mætt rúmlega 6 og ilmurinn sem kom á móti mér var æðislegur. Ragnhildur var á fullu í eldhúsinu að undirbúa allt meðlætið og kjúklingar í ofninum. Mmmm. Ég fór upp og mætti Sigþóri nýkomnum úr baði. Hann var sko ekki tilbúin að fara í föt, hvað þá Bergþór bróðir hans.

Óli var mjög glaður yfir því sem ég gaf honum, en okkur var ekki alveg sama þegar Sigþór tók blaðið (Hustler Humor) og ætlaði að skoða það. Ég tilkynnti honum að hann mætti ekki skoða þetta blað fyrr en eftir 10 ár. Hann virtist alveg sáttur við það þannig að ég geri ráð fyrir því að hann biðji pabba sinn um blaðið eftir 10 ár.

Eftir mikil hopp og læti tókst loks að koma skæruliðunum í náttföt og fá þá niður. Svo mættu Anna og Egill með Birtu. Þegar Sigga og Baddi komu þá stóðu strákarnir í náttfötunum í útidyrahurðinni og görguðu til skiptis "sigga, baddi, amma, afi". Ég geri ráð fyrir að hálft hverfið hafi heyrt að Sigga amma og Baddi afi væru mætt á svæðið. Svo var púslað og leikið sér þangað til maturinn var tilbúin.

Við matarborðið ákvað ég að vera voða lúmsk og spyrja Sigþór hvað hann vildi í afmælisgjöf. Hann var fljótur að svara. Íþróttaálfakarl. Ragnhildur tilkynnt mér á ensku að það væri eitt svoleiðis stykki inni í skáp. Þannig að ég spurði hvað annað honum langaði í. Stærri íþróttaálfsbúning var svarið. Það eru allir sammála að það megi bíða fram á næsta ár. Annað langaði Sigþóri greinilega ekki í, því að hann svaraði mér ekki þegar ég spurði hvað meira honum langaði í. Ég enda örugglega á því að fara í Skólavörubúðina og kaupi eitthvað til stafakennslu því að nóg á hann Sigþór af dóti.

Þegar búið var að borða æðislegan mat (ef ég hefði komist upp með það þá hefði ég bara borðað húðina af kjúklingum, hún var svo góð) og kökur í eftirrétt var farið með strákana í rúmið og tekið af borðinu. Ég fór upp á eftir Óla og Ragnhildi, kom Sigþóri í hrein náttföt, híhíhí, og hjálpaði honum svo upp í kojuna. Þegar Ragnhildur kom svo með Bergþór bauð ég góða nótt. Bergþór sagði bless og góða nótt, en Sigþór sagði eitthvað sem hvorki ég né Ragnhildur skildum. Gerðum bara ráð fyrir að væri einhver stytting á ´bless og góða nótt´.

Það verður fjör á laugardaginn.

Þangað til næst....


Afmæli næstu helgi....

Hann Sigþór á afmæli þann 10. október. Við fengum boðskortið í gær með stórri mynd af íþróttaálfinum, auðvita. Það er mæting kl.15 á laugardaginn 7.okt. Eitt er víst að það verður eitthvað nammigott á boðstólnum eins og venjulega. Þá er bara að drífa sig og kaupa afmælisgjöf og spurning hvort ég reyni að sortera myndirnar sem ég á af þeim bræðrunum og brenna á disk handa Ragnhildi og Óla. Það kemur í ljós. Þær eru svo margar.

Þangað til næst....


Er að komast í skriftargírinn....

Ég fór með mömmu í Smáralindina á laugardaginn. Vá hvað var mikið af fólki á staðnum. Held að ég hafi aldrei séð bílastæðið eins fullt. Við fórum nú ekki í margar búðir, en tókst nú samt alveg að eyða pening. Ég keypti mér smá af fötum og mamma keypti sér kjól. Hún lýsti því yfir þegar við vorum komnar heim að það væri stórhættulegt að fara með mér í búðir. Hún keypti sér alltaf eitthvað þegar hún færi með mér, en tækist alveg að komast eyðslulaust í gegnum búðarráp án mín. Ég fer að fara fram á prósentu í búðunum sem hún verslar í þegar ég er með.

Svo var litið á klukkuna, vá hvað hún var orðin margt. Tíminn hafði sko hlaupið frá okkur og maginn á mér farinn að kvarta.  Mamma stakk upp á því að við réðumst bara á ostakynninguna sem var í Vetrargarðinum. Ég vildi nú ekki taka áhættuna, ég meina allskonar ostar á tóman maga. No thank you very much! Venjulega fæ ég mér að borða á Energiu, en hafði eiginlega ekki áhuga á því þar sem það var svo fullt að einungis var borð laust alveg við útganginn. Sem betur fer verð ég nú bara að segja. Ég og mamma löbbuðum okkur inn á Wok Barinn allavega til að sjá hvað væri í boði. Við fengum okkur sitthvort barnaboxið sem kostaði heilar 490 krónur. Það eru eggjanúðlur með grænmetisblöndu að eigin vali, 2 teriyaki kjúklingaspjót og hrísgrjón. Þetta var rosalega vel útilátið og gott. Nammi namm. Það endaði á því að við keyptum 4 barnabox í viðbót til að taka með heim í kvöldmat handa karlpeningnum á heimilinu. Þeir voru mjög ánægðir með matinn þrátt fyrir að hann væri snemma. Eitt er víst, á Wok Barinn kem ég til með að fara aftur. Ég fæ bara vatn í munninn við að skrifa þetta.

Meira um mig og mömmu. Við fórum nefnilega í kertagerðina Jöklaljós (http://www.joklaljos.is/) í Sandgerði þarsíðustu helgi. Það er hefð hjá okkur að fara þangað á haustinn að kaupa kerti. Mamma kaupir alltaf kertin í aðventukransinn þarna. Mamma keypti eins og venjulega kertin í aðventukransinn og ofsalega falleg rauð pýramidakerti með gyllingu. Ég keypti þó nokkuð af kertum, litlar kúlur, löng mjó kerti, pýramída og hátt kubbkerti. Öll voru kertin sem ég keypti jöklablá. Það er svo gaman að koma í kertagerðina hjá henni Sólrúnu og fer maður sjaldnast tómhentur heim.

Önnur ástæðan fyrir ferðum okkar til Sandgerðis er Listasmiðjan Ný Vídd sem hefur verið í sama húsi og Jöklaljós í mörg ár en okkur til mikillar furðu er hún nú flutt í annað húsnæði við hliðina á Fræðasetrinu. Við kíktum auðvita þangað eins og venjulega dróst ég að leirmununum hennar Stellu. Ég sá skál sem ég kolféll fyrir en hef því miður ekki pláss fyrir hana. Sem betur fer sá ég svona sem maður hengir á vegg og setur sprittkerti eða lítil kerti í (get ekki munað hvað þetta er kallað, stupid me, eða hvað) sem var með sama munstur og liti og skálin. Keypti það auðvita þar sem veggplássið hjá mér er ágætt. Hehehe. Ekki má heldur gleyma steinasmiðjunni sem er við hliðina á listasmiðjunni. Því miður var lokað, eigendurnir í útlöndum og afleysinginn ekki að standa sig, þannig að við lágum bara á gluggunum. Eigum örugglega eftir að kíkja þangað seinna. Mamma keypti innflutningsgjöf handa Helgu vinkonu sinni í listasmiðjunni. Ég mæli með því að fólk fari og skoði kertagerðina og listasmiðjuna. Þar er hægt að fá svo margt skemmtilegt, ekki skemmir heldur að það er ódýrara heldur en í blómabúðunum.

Þangað til næst....


Garðálfur á ferðalagi....

Ég fann þessa skemmtilegu frétt inni á boston.com. Njótið vel.

Man's lost gnome attends Steelers game

MORGANTOWN, W.Va. --Allen Snyder's garden gnome is apparently out of jail and now traveling the country. The 14-inch tall red-and-white statue disappeared from Snyder's Morgantown yard in the spring, and Snyder has since received three letters claiming to have been written by "Gnomey."

The latest letter, which Snyder received this week, included photos of the gnome in the company of Steelers fans attending Pittsburgh's football home opener.

"You never took me to any games," the note said. The letter ended: "Have to go now. Boarding a plane. Now, finally, broadening my travels."

An earlier letter included a request for bail money and included what appeared to be booking photos of Gnomey and another of the gnome in the back seat of a police car.

Snyder has no idea who's pulling this prank but said his short list of suspects includes several gag-loving friends.

The plight of his gnome has gotten a lot of attention. Snyder says people are always asking if he's heard from Gnomey.

"I never thought it would go this far," he said.

The story has even caught the attention of officials at Travelocity, which uses a roaming gnome in the online travel agency's advertising.

"While we know that your dear friend, Gnomey, can never be replaced, we're sending the enclosed Roaming Gnome to keep you company in his absence," wrote Michelle Peluso, president and chief executive officer of Travelocity, based in Southlake, Texas. "Hopefully your friend will find his way out of trouble and back to your front yard soon, although we can't help but admire his sense of adventure and love of travel."

Þangað til næst....


Fór í klippingu....

Já ég fór í klippingu í síðustu viku. Það væri svo sem ekki frásögu færandi nema ég lét klippa mig stutt og sú sem átti að klippa mig fékk aðra til þess. Ég er nefnilega með svo liðaða hár að það er meira en að segja það að klippa mig. Stúlkan sem átti að klippa mig sagðist ekki treysta sér til þess og spurði hvort mér væri sama þó hún fengi eina sem kynni að klippa liðað hár til þess að klippa mig. Ég sagði auðvita endilega og varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var á Höfuðlausnum í Grafarvoginum og sú sem klippti mig heitir Kristín Egilsdóttir. Ekkert smá klár. Ég hef nefnilega lent í klippurum sem spá greinilega ekkert í klippinguna. Frekar metnaðarlaust fólk það. Ég er alveg rosalega ánægð með klippinguna. Mamma og Co. voru frekar fegin að ég lét ekki raka á mér hausinn eins og síðast þegar ég var með stutt hár. En mikið rosalega var það þægilegt. Hmm, ætli það verði næst.

 Þangað til næst.... 


Harðangurs hrakfarir

Ég byrjaði um verslunarmannahelgina að sauma harðangur aftur eftir smá pásu. Er að sauma tvo dúka og ætla að byrja á þeim þriðja í kvöld eða um helgina, hann er frekar stór. Ég á nefnilega heilmikið efni og hélt að ég ætti nóg í þriðja dúkinn. Er búin að kaupa allt garnið, þangað til annað kemur í ljós. Í fyrrakvöld ætlaði ég að byrja á dúknum en þá kom í ljós eftir mikla talningu að efnið dugði ekki. Bömmer. Ég fór í gær í Skólavörubúðina til að kaupa efni í dúkinn. Þegar heim var komið byrjaði ég að telja á lengdina og klippti efnið til. Svo taldi ég á breiddina. Öskrandi Ónei, ég keypti ekki nóg efni. Arg, garg o.s.frv. Ég hélt að ég væri að tapa glórunni, þeirri litlu sem er eftir, svo ég skoðaði leiðbeiningarnar með munstrinu enn eina ferðina. Alveg týpískt. Það er gefið upp 8,5 spor á cm á öllum dúkunum í blaðinu, ég er með efni sem er 8,7 spor á cm sem þýðir minna efni, nema á þessum eina. Þar er stærðin á efninu sem þarf í dúkinn miðuð við 10 spor á cm. Gráta Ekkert smá fínt efni. Nú á ég fullt af efni þannig að það verður nóg að gera hjá mér að sauma úr því öllu.

Þangað til næst....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Ég er rauðhærð með krullur. Hef dútlað við hitt og þetta. Þykir gaman að elda góðan mat, lesa, horfa á góðar myndir og sjónvarpsþætti og leika við kisuna mína hann Snúð. Er hálfskrítin og stolt af því.

Spurt er....

Rottur eða kakkalakkar, hvort er verra?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband