Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Ferðasaga frá Nýja Sjálandi. Á leiðinni....

Flugið frá Danmörku til Austurríkis var mjög stutt, um einn og hálfan tíma. Flugfreyjurnar og þjónarnir voru á hlaupum allan tíman því að það var borin fram létt máltíð í fluginu. Frá Austurríki var haldið til Singapore og það flug var töluvert lengra.

Miðað við hvað ég hafði verið hrædd í fluginu frá Íslandi til Danmerkur þá var ég furðulega róleg í þessum hluta flugsins. Fannst algert æði þegar flugvélin var að taka á loft og lenda. Krafturinn alveg rosalegur. Ég er nú samt viss um að aðalástæðan fyrir því hvað ég var laus við alla flughræðslu var stærð vélarinnar. Mér fannst ég alls ekki vera í flugvél. Flugið til Singapore var 12-13 tímar. Það var nóg að gera um borð. Við fengum nánast allt sem við báðum um hjá flugfreyjunum og þjónunum. Ein af íslensku stelpunum átti afmæli. Við fórum og töluðum við yfirflugþjóninn og fengum kampavín og súkkulaðiköku. Það var mjög skemmtilegt og kakan algjört æði. Það var svo spilað, fengum spilastokka í flugvélinni. Ég á minn ennþá. Sofið, ekki mikið þó. Fengum svo tvær máltíðir í viðbót. Kvöldmat og morgunmat. Ég rölti líka um vélaina og reyndi aðeins að kynnast öllum hinum skiptinemunum. Þrátt fyrir lengd flugsins var það fljótt að líða. Þegar við komum svo til Singapore fengum við að vita að flugið til Nýja Sjálands hafði seinkað um 5 tíma. Það var því 7 tíma stopp en ekki tveggja á Changi flugvellinum í Singapore.

Hvað gerir maður eiginlega á risastórum alþjóðlegum flugvelli í 7 tíma? Ég fór og fann örugglega einu opnu verslunina í nýja hlutanum á Changi. Það var verslun sem seldi ljósmyndavörur. Þar keypti ég Canon EOS1000. Hafði lengi langað í hana, en vélin var svo fáránlega dýr heima á Íslandi að ég hafði ekki haft efni á henni. Myndavélin, linsa, taska og ýmislegt annað var meira en helmingi ódýrara á flugvellinum en heima. Ég var himinlifandi með þessi góðu kaup og keypti mér ekki aðra vél fyrr en 11 árum seinna. Ég á ekki nóg af myndavélum nefnilega. Ég skoðaði minjagripabúðirnar, fylgdist með vopnuðu vörðunum útundan mér. Saklaus íslensk stúlka ekki von því að mæta vopnuðum vörðum. Sem betur fer þá útvegaði fararstjórinn mat handa okkur þar sem fluginu seinkaði svo mikið. Þegar við gátum loksins farið í brottfararsalinn þurftum við að fara í gegnum málmleytarhlið. Strákar verða og eru alltaf strákar er það eina sem ég get sagt. Þeir léku sér nefnilega á því að fá hliðið til að pípa á sig með því að setja eins mikið af málmhlutum á sig eins og þeir gátu. Klink, lykla og margt annað. Ég ásamt fleirum hristi bara hausinn yfir vitleysisganginum í þeim. Flogið var með eins vél til Nýja Sjálands ég man nú samt ekki hvort það var sama vélin. Flugið var álíka langt og til Singapore. Alveg nóg að gera um borð. Kynnast krökkunum betur og bara hafa það gaman. Ég svaf nánast ekkert á leiðinni og var því orðin ansi þreytt þegar komið var til Nýja Sjálands. Mér fannst það óskaplega gaman, enda búin að bíða eftir þessu síðan í september. Það fyrsta sem var gert þegar vélin var opnuð, var að það komu flugvallarstarfsmenn og spreyjuðu alla vélina. Við gerðum auðvita ráð fyrir að það væri bara svona vond lykt af okkur útlendingunum að þetta væri nauðsynlegt. Hehehe! Nei þeir voru að spreyja með skordýraeitri. Það fyrsta sem maður andaði að sér á Nýja Sjálandi var sem sagt skordýraeitur. Er það furða að maður sé skrítinn.


Mamma best....

Húsgögnin komu um 7 leytið á föstudagskvöldið. Ég spurði bílstjórann hvort það væri örugglega allt með. Jú, jú allt komið sem þið áttuð að fá. Ég hefði betur verið frekari við blessaðan bílstjóran, því að það vantaði skrúfurnar sem fylgdu skemlinum og rörið sem stólinn fór á. Ég varð svo pirruð að það var ekki hægt að tala við mig án þess að ég urraði. Sem betur fer þurfti ekki að gera neitt við svarta leðurstólinn nema taka utan af honum. Alveg tilbúin. Jibbý. Það þurfti krafta í að skrúfa fæturnar undir leðursófan en mikið helv.... er hann flottur komin inn í íbúð. Þegar mesti pirringurinn var farinn úr mér á föstudagskvöldið fór ég að koma fyrir hillum og skápum og ganga frá.

Svo er hún mamma alveg ótrúleg. Hún fær köst reglulega. Þá meina ég þrifköst. Hún var nefnilega búin að þrífa hjá mér þegar ég kom heim á föstudaginn þar sem við fengum ekki þrif frá tryggingunum. Ekki það að tryggingarnar hafið ekki staðið sig frábærlega í alla staði.

Á laugardagsmorgun var farið út eldsnemma. Byrjaði á Græna markaðinum við hliðina á Rekstrarvörum. Ég var að leyta að potti fyrir drekatréð mitt. Fann ekki pott en keypti 10 hvítar rósir handa mömmu. Svo var farið inn í RV. Þaðan lá leið í Húsgagnahöllina út af þessu veseni og Þórey og einhver annar starfsmaður ætluðu að ganga í þetta á meðan ég og mamma kláruðum bæjarrúntin. Ég kíkti reyndar á púðana sem voru til í Húsgagnahöllinni en fannst þeir aðeins of dýrir. Þeir sem mér leyst á voru ný vara, ekki á útsölu. Svo var það Skífan í Kringlunni. Næst á dagskrá var IKEA. Þó svo að mér hafi ekki litist á nein húsgögn þar þá var ég að vona að ég gæti keypt teppi og púða þar. Jú, jú. Ég keypti 2 teppi, 3 púða og eitthvað smádót. Fórum svo í Gripið og Greitt þar sem ég hafði boðið fullt af fólki í mat um kvöldið og vantaði svona ýmislegt sem fæst bara í Gripið og Greitt. Í Blómaval fann ég svo pott fyrir tréð mitt. Það er hægt að drepa mann með honum hann er svo þungur. Svo varð ég að fara í 2001 á Hverfisgötu og verslaði auðvita allt of mikið Sigga til mikillar ánægju. Ég varð aftur frekar pirruð þegar við komum í Húsgagnahöllina þar sem það var ekki hægt að redda þessu eins og ég vildi. Ég sagði Þórey að ég ætlaði að hringja þegar ég væri búin að hugsa málið. Fékk snilldarhugmynd og var búin að fá stólinn og skemilinn samansettan seinnipartinn.

Matarboðið heppnaðist ágætlega. Var með flögur og ídýfur handa liðinu þegar það kom svo ég hefði nú tíma til að elda kalkúnaborgarana. Þeir voru nammi. Var með kál, gúrkur, tómata, lauk, grænmetissósu og pítusósu til að setja á borgarana. Nammi.

Á sunnudeginum kom svo Sigga systir hennar mömmu með Sigþór og Bergþór. Ragnhildur mamma þeirra var orðin fárveik. Sigþór fór svo til Önnu systir hennar og Bergþór var hjá okkur. Um kvöldið fór ég til Ragnhildar frænku og gisti þar. Öllum fannst öruggara að hún væri ekki ein.

Þangað til næst....


Ferðasaga frá Nýja Sjálandi. Lagt af stað....

Fyrir rúmlega 15 árum lá leið mín til Nýja Sjálands sem skiptinemi. Þetta var mín fyrsta ferð til útlanda þannig að ég var mjög spennt. Það var reyndar mikil óvissa um hvort skiptinemarnir fengju að fara vegna ástandsins við Persaflóa. Það stoppaði okkur ekki, þannig að í janúar 1991 fór ég og 7 aðrir skiptinemar til Nýja Sjálands 6 stelpur og 2 strákar, ég man ekki hvað þau heita öll þarf að kíkja í myndaalbúmið. Flogið var Ísland - Danmörk, Danmörk - Austurríki, Austurríki - Singapore, Singapore - Nýja Sjáland og innanlands á Nýja Sjálandi, Auckland - Napier. Þetta ferðalag tók 48 tíma, þar af voru 26-28 tímar í flug og hvergi gist á leiðinni.

Flugið til Danmerkur var mér mjög eftirminnilegt og tók um þrjá tíma. Ég var alveg skíthrædd við flugtak, sönglaði í hausnum á mér "við hröpum, ég dey" mest alla leiðina og leið nú ekki betur þegar að lendingu kom. Ég var auðvita himinlifandi þegar ég lenti í Danmörku heil á húfi. Á Kastrup fórum við í gegnum tolleftirlit. Annar íslensku strákanna var hávaxinn með sítt ljóst hár og var hann stoppaður. Aumingja hann. Mamma hans hafði keypt handa honum tannkrem sem var enn í kassanum óopnuð. Tollararnir höfðu mikin áhuga á tannkremstúpunni, og ekki minnkaði hann þegar ég og 3 af stelpunum forðuðum okkur, kíktum svo fyrir horn og hlógum eins og vitleysingar. Greyið stráknum fannst þetta ekkert fyndið.  

Í Danmörku þurftum við að bíða í nokkra tíma eftir næsta flugi. Það var með Singapore Airlines sem er besta flugfélag sem ég hef flogið með. Á meðan ég beið eftir fluginu rölti ég um Kastrup með ferðafélögum mínum. Það sem mér fannst skrítnast við Kastrup, alþjóðlegur flugvöllur, að starfsfólkið í búðunum virtist tala litla sem enga ensku. Danir eru Danir, en samt! Þegar þotan sem flogið var með til Singapore með stuttu stoppi í Austurríki var komin að hliðinu sátum við bara og biðum. Mér fannst mikið til vélarinnar koma því að hún var alveg ótrúlega stór og tók þvílíkan fjölda farþega. Mig minnir yfir 600. Fljótlega fór fólk að týnast inn í brottfararsalinn. Þar á meðal Gunnar fararstjóri sem var sænskur ef ég man rétt og skiptinemar frá hinum norðurlöndunum. Greiðlega gekk að koma farþegum inn í vélina og þegar ég var sest gat ég nú virt fyrir mér þessa stærðarinnar þotu. Það var mikil stemming í hópnum enda allir spenntir fyrir ævintýrinu framundan.

 


Húsgögnin farin....

Þá eru húsgögnin farinn sem átti að henda. Það kom bíll í gær og sótti allt draslið. Gísli bróðir hjálpaði bílstjóranum að bera sófana út. Það er pínu tómlegt hjá mér.

Á morgun klukkan 19 á allt sem verslað var í Húsgagnahöllinni að koma. Þá þarf víst að drífa í að þrífa því sem ekki var hent. Það eru hillur, skápar og skenkur. Ég held að foreldrar mínir verði mjög glaðir þegar búið verður að ganga frá öllu. Ekki síst þar sem þau geta þá látið fara vel um sig fyrir framan sjónvarði í nýju stólunum sínum.

Þangað til næst....


Húsgagnaleiðangur....

Meira rausið var nú í mér í gær. Neyddist til að fara og athuga með húsgögn. Nennti ekki neitt þannig að ég fór í Odda og Húsgagnahöllina. Ekki var nú þjónustan góð hjá Odda. Það var engin við sem gat gefið upplýsingar um skrifstofustóla. Hann fer klukkan 16 var mér tilkynnt og ekki vissi starfsmaðurinn sem var að vinna verð eða nokkuð annað um stólana. Ég sem ætlaði að fá mér alveg eins stól í staðinn fyrir þann sem ég þarf að henda. Ég labbaði út með þeim orðum að ég ætlaði að versla annarstaðar. Alveg hryllilega pirruð. Ég nennti þessu heldur varla.

Það var nú skárra að koma í húsgagnahöllina. Ég fór í fyrradag aðeins til að skoða og ákvað að ég nennti ekki að fara neitt annað. Það tók mig rúmlega 1 1/2 tíma að skoða og velja, talaði við stúlku sem heitir Þórey í fyrradag og hún kom aksvaðandi þegar hún sá okkur og fylgdi mér um alla búð athugaði hvort húsgögnin sem voru valin væru ekki til og talaði svo við verslunarstjóran til að athuga hvað hún gæti veitt mér mikin umfram afslátt. Fékk tveggja sæta sófa, 2 stóla og skemil. Sófinn og annar stóllinn voru á útsölu á 70 og 60 þúsund krónur, hinn stólinn og skemilinn voru nýkomnir í búðina og kostuðu 110 þúsund krónur að fullu verði. Ég fékk reyndar afslátt af þeim þar sem ég var að versla svo mikið. Við þetta bættust svo 2 lazy-boy stólar handa mömmu og pabbi og sófi fyrir bróðir minn. Þetta allt saman nálgaðist 400 þúsund krónur og kostar eiginlega það sem kemur úr tryggingunum. Þetta hljómar kannski eins og draumur fyrir einhverja, að kaupa svona mikið af húsgögnum. Ekki alveg. Það bjargaði mér að ég gat keypt þetta allt á einum stað.

Þegar búið er að fjarlægja ónýtu húsgögnin og smádótið þá verð ég að fara að kaupa dúka, teppi, púða og svoleiðis. Ég veit ekki hvert ég fer til að kaupa það. Mjög flottir púðar í Húsgagnahöllinni. Ætli ég fari svo ekki í IKEA.


Ófremdarástand....

Mikð ofboðslega er ég orðin leið á ástandinu heima hjá mér. Smiðirnir eru ekki búnir að klára. Þegar þeir klára kemur málarinn og lagar það sem smiðirnir rákust í. Svo verður þrifið! Planið er að það verið keypt þrif. Það þarf víst að þrífa allt með einhverju sérstöku efni og ég veit ekki hvað. Þá á eftir að fá ný húsgögn í staðin fyrir þau ónýtu. Þetta átti allt að vera búið fyrir síðustu helgi. Á núna að vera búið fyrir næstu helgi. Þetta minnir mig óneytalega á þegar ég lá á spítala í viku sem unglingur. Á hverjum morgni sagði læknirinn "þú ferð heim á morgun". Alltaf verið að halda manni volgum.

Ég hugsa að einhverjir sem lesa þetta finnist þetta óþarfa röfl. Getur ekki verið svo slæmt að þurfa kaupa ný húsgögn. Ef þið bara vissuð. Þurfa að þvælast á milli húsgagnaverslana er ekki það skemmtilegasta sem ég geri í umferðinni í Reykjavík. Ég fór í Húsgagnahöllina í gær og enda örugglega þar. Nenni ekki að standa í þessu.


Needful Things eftir Stephen King

Helgin fór ekki alveg eins og ég planaði. Það var ekki búið að klára að ganga frá íbúðinni og ég fékk líka þær fréttir á sunnudaginn að ég þarf að henda eitthvað af húsgögnum. Tryggingarnar virðast sem betur fer ætla að bæta það. ARRRRRRG.

Ég datt bara í bókalestur. Ég hafði tekið frá Needful Things eftir Stephen King þegar ég var að pakka öllu niður. Búin að lesa hana áður og fór á myndina í bíó á sínum tíma. Þessi saga er nú ansi dökk. Mjög svo týpísk fyrir Stephen King. Mér hefur samt alltaf þótt gaman að lesa hann. Ég lifi mig svolítið inn í söguna og sé hana gerast og var því bara í öðrum heimi um helgina.

Fyrir utan bókalesturinn var ég bara á bömmer. Þetta tjónarugl ætlar engan enda að taka.


Niagara fossarnir fyrir 10 árum

Vá! Ég var að fatta að fyrir 10 árum helgina 14-16 júní fór ég til Kanada til að skoða Niagara fossana. Það var alveg æðislegt.

Ég var au-pair í Bandaríkjunum og var þessi ferð á vegum au-pair samtakanna. Ég bjó í Massachusetts og var farið með rútu þanað yfir til New York fylkis og keyrt í gegnum N.Y. til Kanada. Ég fór í gegnum vegabréfseftirlit á regnbogabrúnni. Við komum seinnipartin á hótelið sem við gistum á, ég var í herbergi með tveimur sænskum og einni íslenskri stelpu. Þessar sænsku voru algjör partýfrík. Um kvöldið fórum við og kíktum á fossana Kanadameginn. Það var ljósasýning um kvöldið, fossarnir voru lýstir upp með mislitum ljósum. Það fanns mér ansi flott en mér fannst ekki mikið til fossana koma. Ég frá Íslandi landi Gullfoss. Það átti nú samt eftir að breytast. Vá maður.

Á laugardagsmorgni var farið upp í rútu og aftur til Bandaríkjanna. Maður skoðarn nefnilega fossana up close and personal Bandaríkjamegin. Við fengum risa gular regnkápur og einhverskonar sokkaskó sem maður fór eiginlega berfættur í. Svo var farið í lyftu niður að göngunum sem lágu að fossunum. Ef ég hefði ekki verið í þessum sokkaskóm hefði ég flogið á hausinn það er svo hált á timburstígunum sem liggja upp að pallinum undir einum fossanna. Eins og ég var búin að nefna þá fannst mér ekkert merkilegt að sjá Niagara fossana. Það að standa með fossinn í bakið er geðveikt. Það var engin smá upplifun að standa á pallinum með fossinn í bakið. Þvílíkur kraftur. Ég ætlaði aldrei að vilja fara. Þegar þetta var búið fór ég á bát upp að þeim hluta fossanna sem fólk hefur látið sig fara fram af í tunnum og þess háttar til að reyna slá einhver met. Það lifir það sjaldnast af. Þeir sem fóru með bátnum fengu einnota plastregnkápur. Það var nefnilega farið ansi nálægt. Þetta var alveg æðislega gaman og ekki var það nú verra að veðrið var alveg frábært.

Ég skoðaði ýmislegt Kanadameginn, en það sem stendur uppúr þessari ferð 10 árum seinna eru Niagara fossarnir. Á sunnudeginum fór ég þreytt en ánægð upp í rútu og svaf næstum alla leiðina heim.

http://www.infoniagara.com/

Þangað til næst....


Íbúðin, orkuveitan og Knoll og Tott, eða Sigþór og Bergþór

Þegar ég kom heim var alveg búið að mála og meira en hálfnað að leggja parketið. Það lítur út fyrir að það verði klárað fyrir helgi. Jibbý. Eða, hæ hó og jibbý jei og jibbý jei það er verið að klára íbúðina. Svona í tilefni 17. júni. Vei, húrra, jíbbý........ég gæti haldið endalaust áfram.

En í aðra sálma. Mikið rosalega er ég ósátt við sjónvarpsauglýsinguna sem Orkuveitnan var að senda frá sér. Ég horfði á hana í alla í fyrsta skiptið sem ég sá hana. Var forvitinn hvað væri nú verið að auglýsa. En je minn eini. Úff. Þvílíkur og annar eins horror. Það er nóg að sjá hana einu sinni, nú skipti ég um stöð þegar hún birtist í sjónvarpinu. Til hvers var verið að búa þessa auglýsingu til og hvaðan kemur hugmyndin á bak við hana. Ég fattaði hana ekki. Ég viðukenni það að ég er kannski bara svona fattlaus. En fyrr má nú rota en steindrepa.

Og í en aðra sálma. Ég fór og passaði knoll og tott, eða Sigþór og Bergþór á þriðjudaginn eftir vinnu. Varð nú að hleypa Ragnhildi niður í bæ með tendgó. Við fórum í smá göngutúr, löbbuðum niður að túninu. Réttara sagt hlupu strákarnir og ég á eftir. Það var þvílíkt fjör. Ekki versnaði það þegar við löbbuðum framhjá brunahana. Ég sagði Sigþóri að þetta væri brunahani og þá byrjaði Bergþór, brunahani, brunahani, brunahani...... þið getið ímyndaði ykkur restina. Það var líka erfitt að fá þá til að halda áfram, þeir voru svo hrifnir af hananum. Við fengum okkur pylsur þegar við komum heim. Því er hægt að lýsa svona: Sigþór fékk pylsubrauð með sinnepi og smá tómatsósu á disk. Hann bað um skeið og borðaði tómatsósuna með skeiðinni. Namm. Berbþór fékk pylsu í brauði með tómatsósu. Borðaði bara pylsuna úr brauðinu, fékk tómatsósu á disk og heimtaði skeið svo hann gæti borðað tómatsósuna með henni. Hann borðaði reyndar afhýddar pylsur og var mjög duglegur. Sigþór borðaði hýðið af pylsunum en ekki pylsurnar sjálfar. Þangað til hann sá pylsurnar sem ég var búin að skera niður og setja á disk handa Bergþóri. Hann borðaði þær með bestu lyst, Bergþóri til mikillar skelfingar. Sem betur fer kom mamma við til að athuga hvort ég væri ekki örugglega á lífi þegar ég var að gefa þeim að borða. Ég get ekkert sagt um hvað hefði gerst ef Pálmey amma hefði ekki mætt á svæðið. Það gegnur yfirleitt mikið á hjá strákunum. Annars er hann Sigþór alger snillingur. Hann er Batman óður og var keyptur einhver Batman karl í Hagkaup á mánudaginn, þegar amma hans spurði hvort hann væri ekki með pening heyrist í honum. Gunnhildur er vinur minn. Ekki lengi að koma sér undan. Hann er rúmlega þriggja og hálfsárs. Við erum mikið að spá hvort hann hafi bara verið að skipta um umræðuefni eða viljað að ég yrði rukkuð fyrir Batman. Fyndið. Sigþór og Bergþór eru bara skemmtilegir!

Þangað til næst....


Nýmálað

Málararnir voru komnir ansi langt þegar ég kom heim í gær. Það eina sem er eftir er stóri græni veggurinn. Verður reyndar ekki grænn áfram. Það er marmarahvítt á öllu nema stóra veggnum sem verður ljósljósbrúnn, liturinn heitir City og er mjög flottur. Það er rosalegur munur á íbúðinni. Hún er svo björt að hvíti liturinn sem var á henni stakk í augun. Ég tók reyndar ekki eftir því fyrr en hinn liturinn var komin á.

Svo er það bara parketið. Ég er að vona að það verði farið í það á morgun og klárað eins hratt og mögulega. Draumurinn er auðvita að komast til að ganga frá um helgina. Reyndar þarf að rakamæla gólfið því að eitthvað af vatninu sem lak fór örugglega í grunninn. Þannig að ef rakinn í gólfinu er of mikill verður ekki hægt að parketlegga strax. Ég er með krosslegða fingur, hendur, fætur og allt sem hægt er að krossleggja.

Þangað til næst....


Næsta síða »

Höfundur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Ég er rauðhærð með krullur. Hef dútlað við hitt og þetta. Þykir gaman að elda góðan mat, lesa, horfa á góðar myndir og sjónvarpsþætti og leika við kisuna mína hann Snúð. Er hálfskrítin og stolt af því.

Spurt er....

Rottur eða kakkalakkar, hvort er verra?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband