Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Eldrauður....

Gærdagurinn var nú bara með þeim betri.

Það leit allt út fyrir að hann yrði bara einn af þessum venjulegu dögum. Svo kom pósturinn inn um lúguna. Hmm, bréf til mín frá Happadrætti Háskólans. Getur verið að ég hafi unnið á miðann minn. Jú viti menn, ég vann smávegis og þetta var tilkynning um að vinningurinn hefði verið lagður inn á banka hjá mér. Jibbý, þetta er í annað skipti sem ég vinn á þennan miða og sama upphæðin og ég vann síðast.

Dagurinn varð svo bara betri, litli bróðir kom heim á eldrauðum300 hestafla Ford Mustang GT. Ég rétti fram höndina litli bróðir settist í farþegasætið og svo var farið á rúntinn. Ókei, ekki alveg á rúntinn enda erfitt í umferðinni seinni partinn á fimmtudegi. Ég fór út í búð og keyrði löngu leiðina heim. Fékk eiginlega ekki tækifæri til að gefa í þar sem það var einhver auli á sunnudagsrúntinum á vinstri akrein.

Geðveikur bíll, nú er bara að koma sér í mjúkinn hjá pabba og litla bróðir svo maður fái að keyra hann sem oftast. Devil

Þangað til næst....


Um að gera að blogga....

Já er ekki best að taka sig til og reyna að blogga reglulega. Jú, mér finnst það.

Dagarnir eru ekki mikið frábrugðnir hver öðrum. Nema kannski síðastliðnar tvær vikur. Var hundveik. Með hita, beinverki og alles í síðustu viku. Ég hélt reyndar að ég væri komin með lungnabólgu þar sem ég var með þvílík andþyngsli og hrygldi í mér þegar ég andaði. Endaði með heimsókn frá næturlækni sem úrskurðaði að ég væri með inflúensu og þyrfti hvorki meira né minna en fuglaflensulyfið fræga Tamiflu. Já takk, ég er sem sagt með fuglaflensuna. Bauðst til að hósta á alla sem ég hitti.

Svaf mikið í síðustu viku, eiginlega of mikið.

Gísli afi lést aðfaranótt 1. apríl, vikuna fyrir veikindin miklu, við brunuðum norður til að kveðja þann gamla. Hann lést í svefni sem var mikil blessun.

Hann var nýkomin úr heilmikilli rannsókn og líklega með krabbamein á háu stigi. Fjóla amma lést 1.janúar 1999 eftir langvarandi baráttu við krabbamein. Engum langaði til að upplifa það aftur.

Það var kistulagt 11.apríl og jarðaförin var laugardaginn 12.apríl. Ég fór ekki í kistulagninguna, var bara of veik. Var einstaklega fegin því að við fjölskyldan fórum norður til að kveðja Gísla afa daginn sem hann lést.

Séra Hjálmar jarðsöng afa. Hann Gísli afi bað hann um það þegar hann jarðsöng hana Fjólu ömmu fyrir rúmum 9 árum og auðvita mundi Séra Hjálmar eftir því.

Það er nú samt skemmtilegt að segja frá að þegar langafabörnin hans Gísla afa, synir Ragnhildar og Óla, komu inn í kirkjuna heyrðist í Sigþóri. "Er langafi í kistunni, má ég opna hana, mig langar að sjá hann." Hann Sigþór vissi nefnilega að mamma hans hafði farið á kistulagninguna kvöldið áður til að kveðja afa og að kistunni hefði verið lokað eftir það.

Eftir erfidrykkjuna lá leiðin suður. Ég sá rúmið mitt í hyllingum. Auðvita ekki búin að gera mikið annað en að verma það í veikindunum.

Er enn að jafna mig á þessu öllu saman. Fæ enn smá andþyngsli og nokkuð væn hóstaköst. Vonandi fer þetta að verða búið.

Þangað til næst.... 


Ónei....

....ég er að verða hinn versti fréttabloggari. Blush

Stóð mig að því áðan þegar ég las fyrirsögnina "Tannbursti fjarlægður úr nefi konu á Indlandi" og las fréttina að mig langaði svo að blogga um hana. Stóðst reyndar freistinguna, ekki þó öðruvísi en það að hérna er ég að skrifa um staðfestu mína við að standast freistingar þær sem mbl.is skellir framan í mann með svona fyrirsögnum.

Mér leið alveg svakalega illa þegar ég las fyrirsögnina "Leit að geimverum hafin í Kaliforníu" sem er inni á Tækni og vísindi á mbl.is og gat svo ekki bloggað um fréttina. Það var ekki tengill til þess. Skil reyndar hugsunina á bæ moggafólks þar sem athugasemdakerfið hefði örugglega sprungið ef það hefði mátt. Fyrirsögnin æpir á mann "skrifaðu eitthvað sniðugt". Mér datt nú reyndar í hug að þeir þarna í Kaliforníu væru að leita langt yfir skammt þar sem Hollywood væri nú full af geimverum. Ef stór hluti af fólkinu þar er ekki frá öðrum hnetti þá veit ég ekki hvað. Grin 

Fréttin er um gangsetningu fullt af útvarpssjónaukum (radiotelescopes) sem notaðir verða til að afla upplýsinga langt utan úr geimnum.

Ef ég væri geimvera forðaðist ég það í lengstu lög að láta mannfólkið vita af mér.

Annars er ég viss um að við séum bara tilraunadýr eða peð í leik hjá einhverjum sem fylgjast með okkur og grenja af hlátri yfir vitleysunni í okkur.

Þangað til næst....


Sparnaður....

Við Íslendingar erum mjög sparsöm þjóð, að minnsta kosti íslenskir ökumenn.

Íslenskir ökumenn spara stefnuljósið í óhófi. Ef það er notað, þá er það ekki gefið fyrr en við erum komin í beygjuna og þá er því skellt á til þess eins að staðfesta að við séum að beygja. Þetta hef ég eftir útlendingi sem kom í heimsókn og hafði orð á þessu.

Ég hef reyndar tekið eftir því að í sumum tilfellum þar sem ég gef stefnuljós til að komast á næstu akrein á háannatímum í umferðinni í Reykjavík, þá er ekkert gert til að hleypa mér inní. Ég hef það á tilfinningunni að ökumaðurinn á næstu akrein finnist ég bara vera að svína.

Ég upplifi mig alltaf eins og í kappakstri í þessum tilfellum. Ónei vina, þú færð sko ekki að fara framfyrir mig.

Komum aftur að stefnuljósunum. Þau er þarft öryggistæki. Ekki síst eins og umferðin er í Reykjavík. Verum duglegri að nota stefnuljósið í hringtorgum, fráreinum, aðreinum og einfaldlega þegar tilefni gefur til.

Ég hef því miður ekki hingað til heyrt hugboðin sem bílstjórarnir sem notar ekki stefnuljós og eru að fara beygja sendir mér. Whistling Skrítið.

Þangað til næst....


Kónguló, kónguló vísaðu mér í berjamó....

Ég og mamma fórum í berjamó í gær. Við fórum upp að Tröllafossi í Mosfellsdal og vorum komnar þangað rétt uppúr tólf.

Það var allt morandi í berjum. Ég skellti mér strax í tínsluna og fann þvílíkt magn af bláberjum, bæði venjulegum og eðalbláber. Ég var rúman klukkutíma að fylla eins og hálfs lítra fötu af bláberjum og fór þá til að tæma fötuna og fá mér að drekka. Ekkert smá þyrst eftir allt þetta klifur. Já ég var nefnilega að tína í ansi brattri brekku. Útsýnið alveg æðislegt og ég tók auðvita ekki myndavélina með. Frown

Náði mér svo í aðra fötu svo ég gæti tínt bæði bláber og krækiber, vildi ekki vera að blanda þeim saman. Tíndi rúman lítra af bláberjum og eitthvað svipað af krækiberjum.

Mamma tíndi reyndar mikið meira en ég. Hún er berjatínslumanneskja dauðans. Devil Notar báðar hendur og afköstin alveg svakaleg. Hún sagði mér að þegar hún var krakki var hún stundum fengin að láni til að fara í berjatínslu. Ég áhugaberjatínslumanneskjan nota bara aðra höndina til að tína.Crying

Það var líka fullt af kóngulóm og býflugum, æðislegt að heyra suðið í býflugunum. Svo var ég alltaf að trufla kóngulærnar með tínslunni og þær hlupu undan höndunum á mér. Smile

Þetta var alveg rosalega gaman og ekki skemmdi fyrir að veðrið var frábært. Cool

Fengum ís, rjóma og ber í eftirrétt í gærkvöldi. Restin verður fryst og sultuð næstu daga.

Þangað til næst....


Bláberjamó....

Ég fór í berjamó í gær. Hef ekki farið í háa herrans tíð. Man bara ekki hvenær ég fór síðast.

Ég og mamma ætluðum að fara næstu helgi, en það var svo gott veður í gær að við ákváðum að láta reyna á hvort ekki væru komin ber. Samkvæmt sérfræðingum var hægt að fara tína ber um síðustu helgi þar sem veðráttan hefur verið svo góð.

Við lögðum af stað uppúr tvö. Pabbi vildi koma með sem var fínt því að þá gætum við tínt meira.
Fyrsta stoppið var rétt fyrir ofan veginn þar sem beygt er inn að Skálafelli. Þar var nánast ekkert af krækiberjum en fullt af bláberjum. Þegar við fundum ekki fleiri ber ætluðum við að fara heim en keyrðum svo upp að Tröllafossi.

Þar var alveg fullt af berjum. Ég vildi endilega stoppa og tína meira og var fallist á það. Vá hvað var mikið af bláberjum, við tíndum álíka mikið og við Skálafellsafleggjarann á helmingi styttri tíma. Komum það seint heim að ég og mamma nenntum ekki að sulta í gærkvöldi. Ætluðum að sulta eftir vinnu í dag.

Þá var komið að því. Berin hreinsuð og vigtuð, tæp þrjú kíló. Ég gat haldið aftur af mér á meðan ég var að hreinsa berin og borðaði ekki nema tvö þrjú ber. Svo var stóri potturinn dreginn fram og berjunum og tæpum þremur kílóum af sykri hellt í hann. Allt látið malla í góða stund, alveg var lyktin yndisleg úr pottinum þegar þetta var búið að sjóða saman. Mmmmm. Æðislegt á bragðið. Blandan verður látin kólna í nótt til að athuga hvort hún hlaupi eitthvað. Ef ekki þá hitum við þetta bara upp á morgun og setjum hleypirinn í.

Ég talaði við Óla pönnukökumeistara, manninn hennar Ragnhildar frænku og hann samþykkti alveg að ég biði mér í pönnukökur og mætti með heimatilbúna bláberjasultu til að setja á þær. Ég veit að Sigþór og Bergþór verða mjög hrifnir af sultunni. Hún er nefnilega alveg æðislega góð.

Ég verð greinilega að sulta meira.

Þangað til næst....

 


Hvað er þetta með bílbeltin...

Mér líður eins og ég sé nakin án bílbeltis. Skil ekki þessa vitleysu hjá þeim sem ekki setja á sig beltið.

Um að gera að hækka bara sektina meira. Er nú ekki betra að vera með bílbelti en að vera dauður.

Þangað til næst....


mbl.is Sýndi vítavert gáleysi með barn í bifreiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður maður ekki stundum að leika sér....

Ég rakst á mjög skemmtilega síðu fyrir nokkru sem heitir Tickle.

Þar er hægt að taka próf sem segja manni allt milli himins og jarðar um mann sjálfan. Alveg frá því hvort maður hugsi nógu vel um heilsuna til þess hvert partý þemað þitt er. Það þarf að skrá sig sem notanda, en þá kemst maður í öll þessi próf. Ég hef staðið mig að því að gleyma mér og taka próf eftir próf eftir próf.

Hún er að mestu til gamans þessi síða, en það er margt áhugavert sem kemur í ljós ef maður svara sannleikanum samkvæmt.

Þangað til næst....


Ég fór til London í síðustu viku....

Já þá hefur maður loksins komið til London.

Það er nefnilega svo fínt að vera í Vildarklúbbi Icelandair. Það var tvöfalt punktatilboð í október hjá þeim og ég stökk á það og fékk mér miða til London. Reyndi eftir bestu getu að plata einhvern með mér, en það voru allir búnir að plana útlandaferðirnar og ætluðu ekki að hætta við eða fara í aðra ferð. Það munaði mjög litlu að ég fengi frænku mína með. Ef ég hefði talað við hana hálftíma fyrr! Bara fyndið. Hún hafði nefnilega verið "plötuð" til að fara til Tallin rétt áður en ég hringdi.

Þá var að finna gistingu. Ég var mikið að spá í hótel sem mamma gisti á þegar hún fór út í fyrra þar sem það var rétt hjá Oxfort Street. Ég var endalaust inni á www.visitlondon.com að skoða tilboð á gistingu þar. Ég álpaðist svo óvart inn á Bed and Breakfast linkinn og fann þar lítið hótel sem heitir The Cardiff www.cardiff-hotel.com  steinsnar frá Paddington stöð. Það var reyndar skrítið hvernig ég ákvað að gista þar, ég var nefnilega búin að liggja yfir nokkrum hótelum að reyna ákveða á hverju þeirra ég ætlaði að gista. Datt svo bara inn á þetta og bókaði strax. Fjórar nætur, fimmtudag til mánudags.

Þá var það að plana eyðsluna, hehehe! Það fyrsta sem fór á innkaupalistann minn var Planet Hollywood glas handa bróðir mínum þar sem hann hafði brotið glasið sitt rétt eftir að hann kom með það heim. Það gaf mér fyrirtaks afsökun að gera mér ferð þangað og fá mér að borða. Og mikið ofsalega var maturinn góður. Namm. Svo skoðaði ég heimasíður hjá hinu ýmsu fyrirtækjum sem eru með búðir á Oxford Street og punktaði hjá mér hvað mig langaði í. Auðvita mátti heldur ekki gleyma jólagjöfum handa mömmu og co.

Kreditkort, gjaldeyrir, flugmiði, vegabréf, ferðataska og ég sjálf. Tilbúin til brottfarar.

Mamma keyrði mig og ég var komin út á völl klukkan 7, tékkaði mig inn og fór í fríhöfnina. Þar blasti við manni Stefán Hilmarsson, Kristján einhversson (sorry, man aldrei hvers son hann er), Bubbi og einhver stelpa sem ég veitt ekkert hver er. Þau voru öll að árita geisladiskana sína þannig að ég geri ráð fyrir að stelpan sé söngkona, kannski einhver úr Idol. Það var líf og fjör þarna þar sem fullt af fólki var á leið til útlanda. Ég keypti mér langloku og sódavatn og snæddi það í rólegheitum. Keypti mér svo Séð og Heyrt og rölti að brottfararhliðinu.

Brottför klukkan 9, seinkaði um 5 mínutur. Flugið var fínt en lendingin var sú versta sem ég hef lent í. Ekki það að hún hafi verið hræðileg, það var bara svo ofboðslega mikil ókyrrð í aðfluginu. Flugvélin lenti klukkan 12:05, á áætlun miðaða við seinkunina. Þá var það Heathrow Express lestin www.heathrowexpress.com . Hún gengur frá Heathrow að Paddington stöð á 15 mínútna fresti og var besti kosturinn fyrir mig. Ég borgaði 14 og hálft pund fyrir miðan að Paddington og ferðin tók um 20 mínútur. Leigubíll hefði kostað mig 40 til 50 pund og tekið lengri tíma, að ég held. Frá Paddington lá leiðin að hótelinu, svona þegar maður fann leiðina út af stöðinni. Hehehe. Ég var 4-5 mínútur að labba þetta. Óskaplega þægilegt.

Henti farangrinum inn á herbergi og skellti mér niður í bæ. Það allra fyrsta sem ég gerði var að fara í Beadworks búðina á Tower Street. Það var alveg ágæt að koma þangað og sjá það sem þeir voru að selja með berum augum, ekki bara á ljósmyndum á netinu. Ég varð samt fyrir svakalegum vonbrigðum þar sem úrvalið var frekar aumingjalegt miðað við á beadworks.co.uk og líka dýrara. Mér sýndist það að minnsta kosti, þrátt fyrir að ég borgi flutningsgjald og toll af því sem ég panta af netinu. Eyddi tæplega 25 pundum og fór ekki aftur eins og ég hafði planað.

Þá var það Oxford Street. Ég fór í nokkrar búðir og verslaði smávegis. Hálf skreið til baka á hótelið, eftir að ég var búin að fara í apótek og ná mér í plástur og sótthreinsi. Ég fékk nefnilega þessa svaka blöðru á stóru tánna við allt þetta labb. Það voru ekki skórnir, heldur sokkarnir sem ég var í. Þeir fóru í ruslið. Ég hataði þessa sokka hvort eð var.

Þegar ég var búin að búa um ´sárin´ fór ég á Aberdeen Steakhouse rétt hjá hótelinu. Mæli ekki með þeim stað. En svona til sárabóta þá hitti ég fullorðin hjón frá Danmörk og spjallaði heilmikið við konuna. Hún var færeysk en hafði farið til Danmerkur sem krakki til að fara í skóla og búið þar síðan. Þau vissu heilmikið um Ísland og var mjög gaman að hafa hitt þessi hjón.

Ég hafði stillt vekjaraklukkuna á símanum á 8 svo ég gæti fengið mér morgunmat. Það fylgdir nefnilega alvöru enskur morgunverður með herbergjunum alveg svakalega góður. Hann er borinn fram frá 7-9 en ég gat engan veginn komið mér á fætur, ég var alveg búin á því og svaf til klukkan 10. Skamm, skamm.

Svo verslaði ég bara og verslaði. Keypti mér fullt af fötum, DVD og fleira. Fór vísvitandi með hálftóma ferðatösku út. Keypti mér littla tösku til að hafa í handfarangri og hafði fötin sem ég notaði úti í henni.

Ég fór á Breska safnið á sunnudeginum. Varð fyrir miklum vonbrigðum. Byggingin sem safnið er í er æðisleg. Ekki fannst mér til mikils koma það sem var inni á safninu. Það var stór hluti af safninu lokaður, ég gat þar af leiðandi ekki skoðað það sem mig langaði til. Það er reyndar ofsalega skemmtileg sýning í sérsal á safninu sem heitir "Taboo and Power in the Pacific". Hún bjargaði ferðinni á safnið. Ég er kannski svona mikið snobb, en mér fannst miklu skemmtilegra að fara á Egypska safnið í Kaíró.

Á mánudeginum fór ég í síðustu ferðina niður á Oxford Street. Fór í HMV til að kaupa Cars og Planet Earth sem voru að koma út. Keypti auðvita nokkrar myndir í viðbót, súperman bol handa Gísla bróðir og Goonies bol handa Rúnari P. Þeir voru ánægðir með þá sem er kannski engin furða. Ég var búin að segjast ætla að kaupa boli með "my sister went to london and all I got was this lousy t-shirt" áprentað. Mér fannst Goonies og súperman mikið flottari og mjög viðeigandi. Heheheh.

Ég eyddi restinni deginum í lobbýinu á hótelinu þar sem flugið heim var ekki fyrr en klukkan níu um kvöldið. Skrapp reyndar út nokkrum sinnum til að kaupa mér að borða. Ég var mjög ánægð með gistinguna. Hótelið er gamalt en snyrtilegt. Sama fjölskyldan er búin að reka þetta í meira en 40 ár. Það var lika gaman að sitja í andyrinu og fylgjast með fólkinu sem var að fara og koma. Það er nóg að gera hjá þeim og meirihlutinn af þeim sem skráðu sig inn á meðan ég beið voru að koma aftur og höfðu gist oft áður. Ég ætla að gista þarna þegar ég fer aftur til London. Um 6 leytið fór ég svo að Paddington til að taka Heathrow Express á völlinn. Það tók enga stund að tékka mig inn, en svo byrjaði ævintýrið!

Vá maður það er alveg gengið út í öfgar eftirlitið við innganginn á fríhöfninni á Heathrow. Ég var með plastpoka með tveimur bókum í og sódavatni, litla ferðatösku og handtöskuna mína. Það voru sem betur fer starfsmenn við inngagninn að aðstoða fólk og dreyfa zip-lock pokum fyrir vökvan í handfarangri. Ég náði í einn og bað hann um að taka sódavatnið og henda því, ekker mál. En þá kom hjá honum að ég væri með þrjár töskur/poka. Ég var ekki alveg samþykk því að ég væri með þrennt þar sem ég taldi að handtaskan væri hverrar konu réttur. Ónei. Ég tók bækurnar úr pokanu og setti svo handtöskuna í litlu ferðatöskuna, það er nefnilega hægt að stækka hana. Æi þið vitið með rennilás í lokinu. Nei, ég kom henni ekki fyrir í mæligrindina. Á endanum stóð ég á töskunni til að minnka hana, þið vitið renna aftur fyrir stækkunina og þá var hún komin í rétta stærð. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég var komin inn á fríhafnarsvæðið var að opna litlu ferðatöskuna og taka handtöskuna mína úr henni. Almáttugur. Það fyndasta við þetta allt er að inni í fríhöfninni getur þú keypt ferðatöskur og allt mögulegt þannig að þú gætir farið um borð í vélina með 20 töskur og 15 poka. Þess vegna. Fáránlegt. En auðvita ferlega fyndið eftirá.

Fríhöfnin á Heathrow er dýr. Ég verslaði bara í Swarovski búðinni, lítin sætan kristalfrosk og svo keypti ég mér að borða og drekka. Hálftíma fyrir brottför kom tilkynning um brottfararhliðið. Ég kom mér þangað og svo var hleypt inn í vél. Það var einungis nokkurra mínutna seinkun á brottför, þrátt fyrir það lenti vélin á réttum tíma á Keflavíkurflugvelli. Mikið var gott að koma heim.

Það sem ég hafði ætlað að kaupa í fríhöfninni á Heathrow, en fundist svo dýrt, keypti ég í fríhöfninni heima. Það var töluvert ódýrara en á Heathrow. Mamma og pabbi biðu eftir mér og svo lá leiðin heim. Mikið rosalega elska ég rúmið mitt mikið.

Þangað til næst....


Er að komast í skriftargírinn....

Ég fór með mömmu í Smáralindina á laugardaginn. Vá hvað var mikið af fólki á staðnum. Held að ég hafi aldrei séð bílastæðið eins fullt. Við fórum nú ekki í margar búðir, en tókst nú samt alveg að eyða pening. Ég keypti mér smá af fötum og mamma keypti sér kjól. Hún lýsti því yfir þegar við vorum komnar heim að það væri stórhættulegt að fara með mér í búðir. Hún keypti sér alltaf eitthvað þegar hún færi með mér, en tækist alveg að komast eyðslulaust í gegnum búðarráp án mín. Ég fer að fara fram á prósentu í búðunum sem hún verslar í þegar ég er með.

Svo var litið á klukkuna, vá hvað hún var orðin margt. Tíminn hafði sko hlaupið frá okkur og maginn á mér farinn að kvarta.  Mamma stakk upp á því að við réðumst bara á ostakynninguna sem var í Vetrargarðinum. Ég vildi nú ekki taka áhættuna, ég meina allskonar ostar á tóman maga. No thank you very much! Venjulega fæ ég mér að borða á Energiu, en hafði eiginlega ekki áhuga á því þar sem það var svo fullt að einungis var borð laust alveg við útganginn. Sem betur fer verð ég nú bara að segja. Ég og mamma löbbuðum okkur inn á Wok Barinn allavega til að sjá hvað væri í boði. Við fengum okkur sitthvort barnaboxið sem kostaði heilar 490 krónur. Það eru eggjanúðlur með grænmetisblöndu að eigin vali, 2 teriyaki kjúklingaspjót og hrísgrjón. Þetta var rosalega vel útilátið og gott. Nammi namm. Það endaði á því að við keyptum 4 barnabox í viðbót til að taka með heim í kvöldmat handa karlpeningnum á heimilinu. Þeir voru mjög ánægðir með matinn þrátt fyrir að hann væri snemma. Eitt er víst, á Wok Barinn kem ég til með að fara aftur. Ég fæ bara vatn í munninn við að skrifa þetta.

Meira um mig og mömmu. Við fórum nefnilega í kertagerðina Jöklaljós (http://www.joklaljos.is/) í Sandgerði þarsíðustu helgi. Það er hefð hjá okkur að fara þangað á haustinn að kaupa kerti. Mamma kaupir alltaf kertin í aðventukransinn þarna. Mamma keypti eins og venjulega kertin í aðventukransinn og ofsalega falleg rauð pýramidakerti með gyllingu. Ég keypti þó nokkuð af kertum, litlar kúlur, löng mjó kerti, pýramída og hátt kubbkerti. Öll voru kertin sem ég keypti jöklablá. Það er svo gaman að koma í kertagerðina hjá henni Sólrúnu og fer maður sjaldnast tómhentur heim.

Önnur ástæðan fyrir ferðum okkar til Sandgerðis er Listasmiðjan Ný Vídd sem hefur verið í sama húsi og Jöklaljós í mörg ár en okkur til mikillar furðu er hún nú flutt í annað húsnæði við hliðina á Fræðasetrinu. Við kíktum auðvita þangað eins og venjulega dróst ég að leirmununum hennar Stellu. Ég sá skál sem ég kolféll fyrir en hef því miður ekki pláss fyrir hana. Sem betur fer sá ég svona sem maður hengir á vegg og setur sprittkerti eða lítil kerti í (get ekki munað hvað þetta er kallað, stupid me, eða hvað) sem var með sama munstur og liti og skálin. Keypti það auðvita þar sem veggplássið hjá mér er ágætt. Hehehe. Ekki má heldur gleyma steinasmiðjunni sem er við hliðina á listasmiðjunni. Því miður var lokað, eigendurnir í útlöndum og afleysinginn ekki að standa sig, þannig að við lágum bara á gluggunum. Eigum örugglega eftir að kíkja þangað seinna. Mamma keypti innflutningsgjöf handa Helgu vinkonu sinni í listasmiðjunni. Ég mæli með því að fólk fari og skoði kertagerðina og listasmiðjuna. Þar er hægt að fá svo margt skemmtilegt, ekki skemmir heldur að það er ódýrara heldur en í blómabúðunum.

Þangað til næst....


Næsta síða »

Höfundur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
Ég er rauðhærð með krullur. Hef dútlað við hitt og þetta. Þykir gaman að elda góðan mat, lesa, horfa á góðar myndir og sjónvarpsþætti og leika við kisuna mína hann Snúð. Er hálfskrítin og stolt af því.

Spurt er....

Rottur eða kakkalakkar, hvort er verra?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband